fbpx

Aðstoð við prófundirbúning

Þessi póstur fjallar um hvernig þú getur hjálpað unglingnum þínum að undirbúa sig fyrir próf án þess að hjálpa honum að undirbúa sig fyrir próf.

Sem sagt, þú þarft ekki að sitja hjá honum meðan hann er að læra eða aðstoða hann við að skilja efnið – en getur samt hjálpað honum heilmikið að undirbúa sig fyrir prófin!

Núna eru framhaldsskólanemendur að byrja í prófum og svo kemur fljótlega að því að grunnskólanemendur fari í próf. Þess vegna langaði mig að tala um hvað þú sem foreldri getur gert í dag, til að hjálpa þínum unglingi að undirbúa sig fyrir prófin.

Það er svo gott að byggja upp góðan vana, passa að ætla sér ekki of mikið til að byrja með. T.d. er hægt að hugsa að frá og með næstu viku þá getur unglingurinn þinn byrjað að læra fyrir vorprófin, með því að byrja smátt og auka svo tímann þegar líður nær prófunum.

Hérna eru þrír punktar sem þú getur aðstoðað hann með, en markmiðið er sem sagt að byggja upp vana að setjast niður til að læra. Byrja mjög smátt og ef það gengur vel þá er óhætt að auka við tímann. Ef það gengur ekki vel, þá þarf að sama skapi að stytta tímann.

1. Aðstoð við að finna tíma (búa til plan)
Skoðaðu með þínum unglingi hvernig æfingar og annað lítur út í komandi viku. Skoðið hvenær myndi henta best til að taka frá tíma til að læra. Gott er að unglingurinn þinn hafi frumkvæðið að því að velja hvaða dagur og tími hentar best, því þá er hann að taka ábyrgð á náminu.

Það er líklegast til árangurs að byrja smátt og ekki gera áætlun nema í mesta lagi viku fram í tímann og hafa tímann sem lært er raunhæfan. T.d. gæti 20 mínútur fyrsta daginn verið gott, það hljómar sem eitthvað sem er hægt að gera og svo stuttur tími að það er alveg út í hött að finna einhverjar afsakanir fyrir því að geta ekki lært í 20 mínútur.

Eftir að búið er að ákveða plan, þá þarf að gera planið sýnilegt, til þess að tryggja það að unglingurinn gleymi ekki óvart hvenær hann ætlaði að taka frá tíma til að læra.

Planið þarf ekki að vera flott og ítarlegt, það má vera handskrifað á prentarablað og eitthvað á þessa leið:
mánudagur: læra strax eftir skóla í 20 mínútur
þriðjudagur: læra strax eftir æfingu í 30 mínútur
miðvikudagur: læra strax eftir kvöldmat í 20 mínútur o.s.frv.

Síðan er hægt að merkja x við planið, í hvert skipti sem unglingurinn vinnur eftir planinu.

Varðandi tímalengd, þá er það mjög háð hverjum unglingi fyrir sig. Sumir eiga auðvelt með að einbeita sér í klukkutíma, meðan aðrir eiga erfitt með 5 mínútur. Það mikilvægasta í þessu er því að setja markmið sem unglingurinn upplifir að sé eitthvað sem hann á auðvelt með að gera.

2. Aðstoð við að taka frá áreiti
Skoðaðu með þínum unglingi hvar hann eigi best með að læra og hvað sé best að gera við símann meðan hann er að læra. Ein mjög góð tillaga er að setja hann (þ.e.a.s. símann!) ofan í einhverja skúffu í eldhúsinu.

Oft þurfa nemendur símann sinn til að finna út hvað þeir ætla að læra, en það þarf þá að gerast fyrst (áður en læritíminn byrjar) og svo setja símann í skúffu langt í burtu.

Þegar læritíminn er búinn, þá verður unglingurinn að fagna! Eins og hann hafi skorað mark, sett niður 10 metra pútt eða unnið spretthlaup.

3. Aðstoð við að skipuleggja hvernig eigi að læra
Spurðu unglinginn þinn hvernig hann ætlar að nýta tímann, hvað hann ætli að gera. Það er nefnilega oft þannig að nemendur ætla að byrja á byrjuninni og gera allt. En það er ekki tími til að gera allt þegar kemur að undirbúningi fyrir próf.

Ef unglingurinn þinn fær tækifæri til þess að segja þér hvernig hann ætlar að nýta tímann og talar um það upphátt, þá verður það oft til þess að þeir ná sjálfir að átta sig á hvað sé gott að gera. Það að átta sig á hvernig sé best að fara yfir efni er æfing og um að gera að líta á þetta sem tillögu sem hægt er að aðlaga og breyta næst. Ef það kemur t.d. í ljós að hann nær alls ekki að fara yfir nema örlítinn hluta af námsefninu með aðferðinni sem hann ætlaði að nota, þá verður hann að prófa einhverja aðra aðferð næst.

Ég man þegar ég var að læra fyrir próf “í gamla daga” þá var ég mjög upptekin af því að læra mikið. Ég ætlaði sko að læra allan daginn, ég fór t.d. á bókasafnið og var bara þar. En ég afkastaði mjög litlu af því að ég átti svo erfitt með að einbeita mér. Ef ég hugsa til baka, þá hefði verið betra fyrir mig að hugsa frekar um gæði námsins, heldur en að pína mig til þess að sitja við borð og lesa sömu síðuna 10 sinnum.

Ef unglingurinn þinn á mjög erfitt með einbeitingu, þá þarf að passa að tíminn sem hann taki frá fari í lærdóm, en ekki bara að stara út í loftið eða lesa sama efni mörgum sinnum. Ef það er raunin, þá er tíminn líklega of langur, umhverfið ekki nægjanlega gott eða hann þarf að velja betri tímasetningu þegar einbeitingin er sem mest.

Ert þú kannski með einhver önnur ráð sem hafa virkað vel fyrir þig eða þinn ungling?
Ef svo er, þá máttu endilega deila því með mér með því að senda mér póst á hjalp@staerdfraedi.is

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: