Allir geta lært stærðfræði
og allir geta orðið góðir í stærðfræði
Þetta er slagorðið mitt og ég veit að þetta er satt.
En það er samt þannig að það eru ekki allir sem trúa því.
Margir halda enn í dag að gáfur hafi eitthvað með velgengni að gera og margir halda að sumir séu bara fæddir góðir í stærðfræði á meðan aðrir geti ekki lært stærðfræði.
Í dag ætla ég að segja þér frá Nicholas.
Þegar hann var 7 ára, þá fékk mamma hans þau skilaboð frá skólanum að hann væri versta tilvik sem þau höfðu séð í 20 ár. Hann var settur í greindarpróf og niðurstaðan var að hann væri með lága greindarvísitölu og ásamt því að vera lesblindur. Hann gæti aldrei lært að lesa…
Skólinn var búinn að stimpla hann og ákveða framtíð hans. Þetta var árið 1995.
Þrátt fyrir að mér finnist svo stutt síðan 1995, þá var ekki eins mikið vitað um hvað heilinn okkar er magnaður og hvað það er sem hefur mest áhrif á gengi okkar í skóla og í lífinu.
Það skiptir nefnilega mestu máli að trúa á sjálfan sig hafa þetta “vaxandi hugarfar” sem ég hef oft talað um og ég legg mikla áherslu á að kenna öllum nemendum mínum því það er eitthvað sem hægt er að þjálfa.
Þeir sem ná að temja sér vaxandi hugarfar sýna meiri þrautseigju – því þeir vita að þeir geta leyst verkefnin en það gæti tekið smá tíma.
En það hefur líka mikil áhrif ef einhver í nærumhverfinu trúir á þig hvort sem það er foreldri eða kennari.
En svo við snúum okkur aftur að Nicholas þá tók mamma hans hann úr skólanum og ákvað að kenna honum sjálf.
Árið 2018 þá útskrifaðist Nicholas með doktorsgráðu í hagnýtri stærðfræði frá Oxford Háskóla í Bretlandi.
Hann var svo heppinn að eiga mömmu sem trúði á hann og hann trúði líka sjálfur að hann gæti látið drauma sína rætast þrátt fyrir að skólinn hefði enga trú á honum.
Auðvitað er þetta mögnuð saga og margir hugsa kannski að þetta sé einsdæmi. En ég skal bara segja þér að enn í dag þá halda flestir að þeir sem séu með lága greindarvísitölu geti ekki orðið góðir í t.d. stærðfræði.
En ég hef fengið til mín marga nemendur með þennan “lága greindarvísitölu” stimpil og ég get sagt (eins og rannsóknir sýna) að þessir nemendur geta orðið mjög góðir í stærðfræði.
En það er tvennt sem þarf að vera til staðar: nemendum þarf að langa til þess að vera góðir í stærðfræði og þeir þurfa að vera tilbúnir að leggja á sig mikla vinnu.
Hérna er bók sem mamma hans Nicholas skrifaði:
https://www.amazon.com/Reversed-Memoir-Lois-Letchford-ebook/dp/B079Y599W5
Hérna er LinkedIn prófíllinn hans Nicholas:
https://www.linkedin.com/in/nicholas-letchford/
Svo getur þú gúgglað nafnið á bókinni “Reversed: A Memoir” og fengið upp stutt myndbönd og viðtöl.
Allir geta lært stærðfræði og allir geta lært stærðfræði!
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari