fbpx

Hvernig geta erfiðari próf verið léttari?

Það eru til próf sem sumir kalla stutt greindarpróf. Þessi próf samanstanda af aðeins þremur spurningum sem geta verið ruglandi…

Tveir sálfræðingar tóku sig til og breyttu leturgerð, leturstærð og leturlit á þessu prófi – þannig að textinn varð smár, ljósgrár og með erfiðri leturgerð. Við þessar breytingar hækkuðu einkunnir nemenda í þessum prófum! 

Hvernig má það vera? Jú, með þessari breytingu voru spurningarnar ekki auðlesanlegar sem varð til þess að nemendur rýndu betur í textann og ígrunduðu spurningarnar betur áður en þeir svöruðu. 

Mér finnast þessar spurningar svo skemmtilegar svo ég ætla að leyfa þér að spreyta þig á þeim (án þess að hafa þær illlesanlegar) og fáðu endilega unglinginn þinn til að prófa líka.

Ef þú ert ekki alveg í stuði fyrir 3 spurningar, veldu þá alla vega eina spurningu – þetta er svo frábær heilaleikfimi á sunnudagsmorgni með góðum kaffibolla og ferskum nývöknuðum unglingi!

Þegar þið teljið ykkur vera komin með svar, þá getið þið smellt á vefslóð þar sem ég er með réttu svörin. 

Hérna koma spurningarnar þrjár:

  1. Hafnarboltakylfa og bolti kosta 110 kr. Kylfan kostar 100 kr. meira en boltinn. Hversu mikið kostar boltinn?
  2. Ef það tekur 5 vélar 5 mínútur að búa til 5 bolta, hversu lengi tekur 100 vélar að búa til 100 bolta?
  3. Í vatni er þyrping af vatnaliljum. Á hverjum degi þá tvöfaldar þessi þyrping sig. Ef það tekur 48 daga fyrir þyrpinguna að þekja allt vatnið, hversu lengi tekur það þyrpinguna að þekja hálft vatnið?

Markmiðið er ekki endilega að fá rétt svar. Markmiðið er að reyna við dæmin, rökræða svörin, skoða lausnirnar og ef þið fáið ekki rétt svar að rannsaka þá hvers vegna.

Hérna eru svörin: 
https://staerdfraedi.is/svor-vid-spurningunum-thremur/

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari 
https://staerdfraedi.is/


Posted

in

, ,

by

Tags: