Ég hef skrifað áður um frestun, en hef þá verið að skoða hvers vegna við frestum og hvað sé til ráða. En í stuttu máli sagt að þá frestum við út af tilhugsuninni við að gera það sem við þurfum að gera – en ekki endilega af því að okkur finnist það leiðinlegt. Því um leið og við byrjum á því sem við erum búin að fresta, þá fer oftast þessi frestunartilfinning.
Mér finnst frestun svo spennandi fyrirbæri, líklega af því að ég þoli ekki sjálf hvað ég fresta mikið. Ég rakst á ansi skemmtilega flokkun á mismunandi tegundum frestunar og ætla að aðlaga þá flokkun og fjalla um þær í tengslum við stærðfræði eða nám almennt.
1. “Allt þarf að vera fullkomið” frestarinn
Þessi frestari er alltaf að velta sér upp úr smáatriðunum. Hann frestar því að byrja að læra heima í stærðfræði, því hann er hræddur við að ná ekki að leysa öll dæmin rétt. Stundum byrjar hann, en festist fljótt í einhverju smáatriði (t.d. sýnidæmi) og finnst hann ekki geta haldið áfram fyrr en hann skilur það 100%.
Ráð fyrir þennan ungling er að hugsa um markmið heimavinnunnar. Markmið er ekki að skilja öll dæmin og reikna þau öll rétt. Markmiðið er að fara yfir dæmin, gera sitt besta og spyrja svo kennarann daginn eftir út í dæmin sem hann náði ekki að leysa.
2. Dreymandi frestarinn
Þessi frestari er með stóra drauma. Hann ætlar að ná að fara virkilega vel yfir öll dæmin. Hann býr til plan til að ná að fara yfir allt efnið, en svo gerist ekkert í nokkra daga. Þá býr hann til nýtt plan sem tekur mið af því að vinna upp allt sem hann náði ekki að byrja á.
Ráð fyrir þennan ungling er að setja sér lítil markmið sem fela í sér að framkvæma það að læra (ekki plana). Ekki plana of mikið í einu og jafnvel byrja mjög smátt t.d. reikna 1-2 dæmi.
3. Hræddi frestarinn
Þessi nemandi er með lítið sjálfstraust í stærðfræði. Hann er með innri rödd sem er stanslaust að segja honum að hann geti ekki reiknað þessa stærðfræði. Honum finnst betra að sleppa því að vinna verkefni í stærðfræði í stað þess að eiga á hættu að röddin hafi rétt fyrir sér. Hann velur frekar að vinna verkefni sem skipta litlu sem engu máli og taka frá honum tíma og orku.
Ráð fyrir þennan ungling er að forgangsraða verkefnum og fylgja því eftir. Innst inni veit unglingurinn nákvæmlega hvaða verkefni skiptir mestu máli að hann klári. “Trixið” er að byrja strax á því verkefni og hunsa öll önnur verkefni, þar til því er lokið.
4. “Allt á síðustu stundu” frestarinn
Þessi nemandi nær ekki að koma sér að verki fyrr en það er nánast of seint. Hann byrjar að læra fyrir stærðfræðipróf þegar hann á að fara að sofa og vakir alla nóttina. Ef það eru ekki skýr tímamörk á verkefnum, þá á hann mjög erfitt með að byrja á þeim og ef það eru engin tímamörk þá sleppir hann því. Þessi nemandi vinnur gríðarlega vel undir pressu, en það getur verið mjög stressandi að vera með þessa tegund af frestun því oft eru þetta nemendur sem mæta ósofnir eftir verkefnaskil eða mæta ósofnir í próf.
Ráðið fyrir þennan ungling er að æfa sig í að búa til pressu á sjálfan sig t.d. með því að nota tómatinn. Hann gæti líka reynt að búa til plan þar sem hann hefur ekki endalausan tíma og verður að klára verkefnið á skikkanlegum tíma (þ.e.a.s. án þess að vaka alla nóttina).
5. Upptekni frestarinn
Þessi nemandi er alltaf upptekin og á fullu að vinna í fullt af verkefnum, en afkastar litlu. Þessi týpa á mjög erfitt með að forgangsraða og er í mörgum verkefnum á sama tíma og frestar að klára verkefni eða taka ákvarðanir.
Þessi nemandi þarf að skrifa niður allt sem hann þarf að gera og velja út frá mikilvægi hvaða verkefni hafa forgang og láta allt annað bíða. Það er ekki hægt að vinna 10 verkefni í einu með sama forgang. Hann þarf að skoða hvert verkefni og flokka það í réttan flokk eftir mikilvægi (áríðandi og mikilvægt, ekki áríðandi en samt mikilvægt, áríðandi en ekki mikilvægt, ekki áríðandi og ekki mikilvægt).
—
Ég á nú bágt með að trúa að einhver falli bara undir eina svona skilgreiningu. Ég sé mig í flestum þessum tegundum og veit að það er hægara sagt en gert að ætla að breyta því.
En það sem er kannski mikilvægast að gera sér grein fyrir, er að frestun er vani. Því meira sem við frestum, því meira festum við… En það þýðir líka að um leið og við náum að breyta þessum vana í pínulitlum skrefum, því auðveldara verður að takast á við frestunina og láta hana hafa minni áhrif á það sem við þurfum að gera.
Ég veit að það versta sem kennarar geta gert er að segja nemendum að þeir megi skila verkefnum hvenær sem er á önninni. Það hljómar voðalega næs, en ég get ekki ímyndað mér að nokkur geti unnið svo skipulega fram í tímann að þeir þurfi ekki einhverja pressu jafnt og þétt yfir önnina.
Hvað finnst þér? Er unglingurinn þinn að falla undir einhverja þessa flokkun fyrir ofan? Eða ertu kannski með nýjan flokk? Það væri gaman að heyra frá þér!
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is