fbpx

Wordle og Nerdle

Mín upplifun er sú að allir séu að vinna í Wordle daglega. En kannski er það bara nærumhverfi mitt sem er upptekið af þessu og þess vegna held ég það. Fyrir þá sem vita ekkert um hvað ég er að tala, þá er Wordle leikur á netinu.

Í Wordle eiga notendur að giska á fimm stafa orð. Þegar þeir giska, þá verða stafirnir stundum grænir, það þýðir að þessi stafur er á réttum stað í röðinni, en ef stafurinn er gulur, þá er þessi stafur einhvers staðar í orðinu en ekki á þessum stað. Allir gráir stafir gefa til kynna að þeir séu ekki í orðinu.

Flestum finnst þessi leikur skemmtilegur – eingöngu af því að hann er erfiður og það þarf mikla þolinmæði og þrautseigju til að finna orðið.

Það er til íslensk útgáfa af Wordle sem heitir Orðla sem er ekki síður skemmtilegur leikur og tilvalið að vera í báðum þessum leikjum því það líður langt á milli þess að þú getir fengið næsta orð.

Fyrir nokkrum árum síðan kom smáforrit (e. app) sem mig minnir að hafi heitið Quiz-up. Ég var ekki hrifin af stærðfræðihlutanum í þeim leik, því það byggðist á hraða. Einnig eru til skemmtilegar spurningar inn á Kahoot sem tengjast stærðfræði, en eins og með Quiz-up þá byggir það á að vera fljótur að hugsa. Þess vegna hef ég ekki verið hrifin af þeim, því mér finnst mjög mikilvægt að nemendur fái að njóta sín að leysa krefjandi stærðfræðiverkefni – án tímapressu.

Hvenær eru stærðfræðiverkefni spennandi?

Af hverju eru nemendur í stærðfræðitímum almennt ekki spenntir og uppfullir af eldmóði að leysa hvert stærðfræðidæmi?

Ein ástæðan fyrir því gæti verið að þeir horfa á blaðsíðuna í bókinni og sjá að þeir hafa engan tíma til að hanga og velta hlutunum fyrir sér. Þeir þurfa að klára 15 dæmi fyrir morgundaginn og fljótlegasta leiðin er að skrifa upp eftir öðrum.

Önnur ástæða getur verið að þeim finnst dæmið engin áskorun og nenna ekki að reikna nokkur dæmi í röð sem eru nákvæmlega eins.

Hver svo sem ástæðan er, þá veit ég að nemendum finnst gaman að leysa krefjandi verkefni! Sérstaklega ef þeim er tilkynnt að verkefnið eigi að vera krefjandi.

Vissir þú að það eru til svipaðir leikir og Wordle og Orðla fyrir stærðfræði?
Þeir heita Oodle og Nerdle og eru sem sagt byggðir upp á svipaðan hátt, nema tengjast stærðfræði. Þetta er frábær æfing fyrir unglinginn þinn til að æfa þrautseigju og æfa sig í að njóta þess að rannsaka verkefni.

Ég mæli frekar með Nerdle og hvet þig til að láta unglinginn þinn vita af þessum leik og byrja að æfa sig að leysa krefjandi og skemmtileg verkefni sem tengjast stærðfræði.


Posted

in

by

Tags: