Viðtal hjá kennara

Eins og ég hef skrifað um áður, þá var gerð könnun vorið 2019, og svo unnin skýrsla sem kom svo út árið 2020 á vegum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, til að meta hvernig innleiðing á nýrri aðalnámskrá grunnskólanna hefði gengið. En í þeirri námskrá var einmitt farið frá því að meta árangur nemenda út frá einkunnum á skalanum 1-10 yfir í að meta fyrirfram skilgreinda (mjög huglæga) hæfni sem var túlkuð í bókstafi.

Viðtal við kennara

Niðurstaða skýrslunnar, kom engum á óvart, en staðfesti að:

  • Það er ekki samræmi milli skóla hvað nemendur þurfa að uppfylla til að fá t.d. B
  • Sumir skólar gefa ekki A og því er réttur nemenda til náms ekki jafn
  • Sumir skólar leyfa ekki bætingu en nemendur eiga, skv. aðalnámskránni, að fá tækifæri til að bæta sig áður en 10. bekk lýkur

Í kjölfarið á þessari skýrslu átti heldur betur að gera breytingar, en fjórum árum eftir að skýrslan kom út hefur ekkert breyst og staðan jafnvel versnað, því eftir þessa skýrslu voru samræmdu prófin felld niður og niðurstöður úr PISA hafa aldrei verið verri.

Ef þú átt ungling í grunnskóla, þá þýðir ekkert að bíða eftir að eitthvað breytist, því það mun líklega ekkert breytast meðan þinn unglingur er enn í grunnskóla, en það er samt ýmislegt sem þú getur gert!

Þar sem hver kennari og hver skóli er með sína túlkun á aðalnámskránni, þá er best að leita til einstaka kennara og spyrja þá beint út í stöðu þíns unglings. Kjarnagreinarnar skipta mestu máli þegar kemur að inntöku í framhaldsskólana og því mæli ég með því að þú hafir samband og óskir eftir fundi með þeim kennurum sem kenna stærðfræði, íslensku og ensku.

Á þessum fundi er hægt að spyrja:
Hvernig er staðan á mínum unglingi (biðja hann að fara yfir alla litakóða í Mentor og skýra þá út)? Í hverju þarf hann að bæta sig? Getur hann fengið kost á að bæta sig í því efni sem hann hefur ekki náð tökum á? Hvað þarf unglingurinn minn að gera til að fá örugglega B eða hærra í lokaeinkunn í stærðfræði/íslensku/ensku?

Ég veit að þetta er pínu vesen og jafnvel vill unglingurinn þinn ekki að þú sért að fara að ræða við hvern kennara um hans mál. En staðan er samt þannig að hvorki nemendur né foreldrar vita hvernig unglingurinn þeirra stendur. Þetta er jafnvel enn óljósara fyrir nemendur í 9. bekk, þar sem hæfniviðmiðin eru miðuð við lok 10. bekkjar og því er ekki gert ráð fyrir að nemendur í 9. bekk séu búnir að ná hæfniviðmiðinu fyrir 10. bekk. Þess vegna geta nemendur í 9. bekk verið með einkunnina C í mörgum hæfniviðmiðum, en eru í raun að standa sig mjög vel og „á réttri leið“ miðað við nemanda í 9. bekk.

Ertu með einhverjar spurningar? Ef svo er, hikaðu þá ekki við að spyrja mig með því að svara þessum pósti. Ég verð alltaf hoppandi kát að fá einhverja endurgjöf eða spurningar frá foreldrum.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is