fbpx

Viðhorf stærðfræðikennara

Skiptir viðhorf stærðfræðikennara máli? Eru stærðfræðikennarar með fordóma gagnvart nemendum sínum og getu þeirra til að ná árangri í stærðfræði? Já, örugglega einhverjir kennarar. Fordómar eru fáfræði og það eru ekki allir sem eru að lesa sig til og fylgjast með þeim rannsóknum sem eru í gangi og hafa verið í gangi síðasta áratug.

Skv. rannsókn sem gerð var í Bandaríkjunum þá er stór hluti prófessora sem kenna stærðfræði í háskólum sem trúa því að nemendur séu fæddir góðir í stærðfræði (e. math person) – en ekki að þetta sé eiginleiki sem nemendur geti þróað með sér og orðið góðir í.

Þegar ég var að kenna í kennslustofu og hitti nemendur mína í fyrsta skipti í byrjun annar, þá hélt ég alltaf Æ love STÆ fyrirlesturinn minn fyrir þá. Þetta er fyrirlestur þar sem ég fór yfir hvaða þættir hafa áhrif á hvað okkur finnst um stærðfræði. Þar ræði ég meðal annars við nemendur um nýjustu rannsóknir og þá staðreynd að allir geti lært stærðfræði. Lykilatriðið og það sem skiptir mestu máli til að ná árangri í stærðfræði er að nemendur tileinki sér vaxandi hugarfar (e. growth mindset) sem gengur í stórum dráttum út á það að nemendur trúi því innst inni að þeir geti lært allt, en það gæti tekið þrautseigju og tíma.

Í þessum “pepp” fyrirlestri mínum þá fæ ég, nánast án undantekninga, að heyra að hinir og þessir kennarar hafi sagt við nemendur “þú getur ekki lært stærðfræði” eða “þú getur ekki orðið góður í stærðfræði”. Ég er að vona að þetta sé mjög lágt hlutfall kennara sem segi svona beint við nemendur, því nemendur trúa yfirleitt því sem kennarar segja við þá. En þetta er ekki bara spurning um hvað kennarar segja við nemendur. Þegar kennari horfir í augun á nemanda og er að tala við hann, þá skynjar nemandinn hvort að kennarinn trúi á hann. Það skiptir þess vegna líka máli að kennarar trúi því innst inni að nemendur þeirra geti lært stærðfræði (ef þeir vilja).

Viðhorf stærðfræðikennara

Skarphéðinn stærðfræðikennari í MR
Ég var með stærðfræðikennara í MR sem hét Skarphéðinn, í minningunni var hann gamall karl, en ég velti því fyrir mér í dag hvað hann hafi í raun verið gamall þegar hann kenndi mér. Kannski var hann bara rúmlega sextugur. En Skarphéðinn trúði ekki að stelpur gætu lært stærðfræði. Í heila önn þurfti ég að hlusta á hann segja í hverjum einasta stærðfræðitíma “strákar, takið upp vasareiknirinn” – hann algjörlega hunsaði stelpurnar í bekknum. Kennslan hans gekk út á að fá nemendur upp á töflu til að reikna dæmi og ef einhver stelpa treysti sér ekki til að fara upp á töflu og reikna dæmi þá gekk hann að kennaraborðinu tók upp einhverja bók og sagði með miklum hneykslunartón “Gyða vill ekki fara upp á töflu til að reikna dæmi” og skrifaði svo eitthvað í bókina sína. Það eru eflaust einhverjir “Skarphéðnar” í skólakerfinu í dag, þar sem nánast vonlaust er að reka þá og þeir lifa góðu lífi.

Hverjir eiga að kenna stærðfræði í grunnskólum
Það er mitt mat að enginn kennari í grunnskóla ætti að vera neyddur til að kenna stærðfræði, en það er nú samt þannig. Kennarar í grunnskólum geta komið með óskir um hvað þeim langar að kenna, en svo fá sumir stærðfræði sem hafa ekki brennandi áhuga á faginu og eru ekki dags daglega að afla sér nýrrar þekkingar í stærðfræði. Þetta er samt það fag sem skiptir mjög miklu máli að kennarar hafi góð tök á og geti svarað spurningum nemenda sem skilja ekki nægjanlega vel efnið eins og það er sett fram í kennslubókinni. Stærðfræði er að mínu mati eitt af þeim fögum sem mjög mikilvægt er að kennarar hafi brennandi áhuga á og nái að smita þann eldmóð til nemenda.

En það er ekki hægt að setja alla ábyrgð á kennara. Þú sem foreldri getur gert heilmikið. Bara það eitt að þú vitir að allir geta lært stærðfræði og allir geta orðið góðir í stærðfræði skiptir máli fyrir þinn ungling. Einnig getur þú styrkt vaxandi hugarfar t.d. með því að hrósa unglingnum þínum fyrir að gefast ekki upp í erfiðum verkefnum og þegar hann nær tökum á einhverju nýju efni. (En forðast að segja að hann sé klár).

Veist þú hvernig stærðfræðikennslu er háttað í skólanum hjá þínum unglingi? Er sá sem kennir stærðfræði sérstaklega menntaður stærðfræðikennari og nær að smita áhugann til nemenda. Eða er hann kannski með kennara sem hefur augljóslega ekki áhuga á stærðfræði og trúir ekki á nemendur? Það væri æðislega gaman fyrir mig að heyra þína upplifun á stærðfræðikennslunni, hikaðu ekki við að svara þessum pósti og láta mig vita.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá https://staerdfraedi.is/


Posted

in

by

Tags: