Það kannast flestir við það að vera sýnt hvernig á að gera eitthvað og það virkar mjög auðvelt… en þegar við eigum að framkvæma þetta sjálf þá er það ekki lengur auðvelt!
Þegar ég er að kenna mömmu minni eða pabba á eitthvað App eða nýtt forrit þá læt ég þau alltaf sjálf framkvæma en ekki bara horfa á hvernig ég myndi gera þetta. Og ég fer ekki fyrr en ég sé að þau geti gert þetta alveg sjálf og óstudd.
Að sama skapi þá ítreka ég fyrir nemendum mínum á samræmdu námskeiðunum að þó svo að ég sé búin að reikna hvert einasta dæmi á myndbandaformi þá verði nemendur fyrst að prófa að reikna sjálfir – þeir læra mest á því sama hvort þeim tekst að leysa dæmið eða ekki.
Ég nota oft samlíkinguna við hlaup. Ef ég ætla að vera góður hlaupari og fer til hlaupaþjálfara þá getur hann sýnt mér hvernig eigi að hlaupa og látið mig hafa eitthvað æfingaplan en ef ég ætla ekki að hlaupa neitt sjálf, bara horfa á hann hlaupa – þá verð ég ekkert betri í að hlaupa.
Næsta mánudag byrjar hjá mér námskeið sem er markviss og góður undirbúningur fyrir samræmda prófið í 7. bekk þar sem ég legg mikla áherslu á að nemendur æfi sig í þrautseigju og tileinki sér viðhorf sem er skothelt til árangurs í stærðfræði.
Fyrsta árið sem ég kenndi samræmdu námskeið (sumarið 2013) þá var ég bara að kenna stærðfræði – en svo áttaði ég mig á því að viðhorf, hugarfar, hvatning, námstækni og próftækni er órjúfanlegur þáttur af stærðfræðinámi.
Ég hef sagt þetta áður og ætla að segja þetta aftur… eftir hvert samræmdu námskeið þá fæ alltaf tölvupóst eða skilaboð frá foreldrum sem segja “ég vildi að ég hefði vitað af þessu námskeiði”. Þess vegna væri alveg yndislegt ef þú myndir láta vini og vandamenn sem eiga barn sem er að fara í 7. bekk vita af þessu námskeiði.
Eigðu góðan dag
Gyða stærðfræðikennari