fbpx

Upp með puttana!

Tíminn líður en lítið breytist

Stærðfræðikennsla hefur lítið breyst í skólum frá því ég var í skóla (og líka frá því foreldrar mínir voru í skóla). Í flestum grunnskólum er enn áhersla á að læra margföldunartöfluna utanað (sem eykur á stærðfræðikvíða og hefur lítið með stærðfræði að gera en fínt fyrir þá sem eru góðir í að læra efni utanað) og enn er áhersla á að nemendur séu fljótir að reikna (og þá halda nemendur sem eru hægir eða lengi að fatta að þeir séu lélegir í stærðfræði). 

Einnig þykir barnalegt að nota puttana til að reikna – en núna er eins gott að hætta þessari gamaldags hugsun. Því árið 2015 var skrifuð grein um hversu mikilvægt það er fyrir þróun heilans og stærðfræðikunnáttu að nota puttana.

Upp með puttana
Upp með puttana

Upp með puttana!

Nýlegar rannsóknir sýna að þegar við erum að læra stærðfræði þá eru fimm svæði í heilanum virk og tvö þessara svæða eru sjónræn. 

Það að nota puttana þegar við erum að vinna í stærðfræði eykur skynjun okkar á stærðfræði og gerir okkur betri í stærðfræði. 

Það er ekki þar með sagt að við eigum alltaf að nota puttana en það er nauðsynlegt fyrir alla að þróa þessa skynjun og halda áfram að læra stærðfræði með því að sjá hana fyrir sér – hvort sem við notum puttana, teiknum eða notum einhver tól til að aðstoða okkur. 

Hvenær má nota puttana til að telja?

Stutta svarið er alltaf! Ef okkur finnst það hjálpa okkur að leysa verkefni með því að nota puttana þá eigum við að nota puttana. Þetta er alveg óháð því á hvaða skólastigi eða aldri við erum. 

Það sem þarf að gera í stærðfræðikennslu í dag er að gera stærðfræðina sýnilegri og við það eykst talnaskilningur nemenda. T.d. nemendur sem nota mikið puttana til að reikna dæmi eins og “12-4” gætu unnið með talnalínuna til að sjá betur fyrir sér hvernig hægt er að líta á þetta verkefni sem væri þá auðveldara að leysa með því að hafa aðra sýn á dæmið.

Þeir sem hafa áhuga á að lesa meira um þetta efni geta lesið þessa grein sem gefin er út af Stanford háskólanum í Bandaríkjunum:
https://www.youcubed.org/wp-content/uploads/2017/03/Visual-Math-Paper-vF.pdf

Ertu með einhverjar spurningar?
Eða ertu kannski með einhverja frásögn úr stærðfræði sem þú vilt deila með mér?
Ef svo er, ekki hika við að hafa samband með því að svara þessum pósti eða senda mér póst á hjalp@staerdfraedi.is

Bestu kveðjur, 
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

by

Tags: