fbpx

Trúir kennarinn á þinn ungling?

Það hafa margar rannsóknir verið gerðar sem sýna fram á að það skiptir miklu máli að kennarar trúi því að nemendur geti náð árangri í námi. Einnig skiptir máli að kennarar viti að það fæðist enginn t.d. góður í stærðfræði og að allir geti orðið góðir í stærðfræði, ef þeim langar til þess og þeir eru tilbúnir að leggja á sig þá vinnu sem þarf til þess.

Í síðustu PISA könnun kom fram að tæplega 60% íslenskra nemenda trúa því að “sumir eru ekki góðir í stærðfræði, sama hvað þeir leggja hart að sér við námið”. Sem sagt þeir trúa því að sumir fæðist góðir í stærðfræði og það sé lítið sem þeir geti gert til að bæta sig. Þetta er mikið áhyggjuefni, því það er mikil fylgni milli þess að vera sammála þessari fullyrðingu og að ganga illa á PISA prófunum. Einnig hafa rannsóknir sýnt að þegar nemendur eru ósammála þessari fullyrðingu, þ.e.a.s. þeir vita að þeir geta orðið góðir í öllum greinum ef þeir leggja hart á sig, þá nálgast þeir námið með þeim hætti að þeir vita innst inni að þeir geta lært allt, en það getur samt tekið tíma.

Það er því án efa mikilvægt upp á gott gengi í skóla og lífinu að nemendur trúi því að þeir geti vaxið, bætt við sig í þekkingu og orðið betri og betri í því sem þeir leggja sér fyrir hendur. OECD nefnir einmitt í einni skýrslunni sem þeir gáfu út að það að gefa nemendum þessa trú á eigin getu skiptir sérstaklega miklu máli fyrir viðkvæma nemendahópa.

Ég er búin að verja stórum hluta sumarfrísins að hlusta á viðtöl og lesa greinar tengdar menntamálum. Í einum viðtalsþættinum sem ég horfði á, var tekið viðtal við fyrrum skólastjóra sem talaði svo fallega um börnin og starfsfólk skólans. Það skein alveg í gegn hversu mikið honum þótti vænt um að vinna með börnum og það er enginn efi hjá mér að hann var að gera allt sem hann taldi að væri best fyrir börnin.

En hann var að lýsa því að sumir væru bara ekki góðir í öllum greinum og þá þyrfti að hjálpa þeim að sjá styrkleikana. T.d. kom einn nemandi til hans og sagði að hann væri ekki góður í stærðfræði og þá svaraði þessi yndislegi maður “það er allt í lagi, því þú ert svo góður í smíði”.

Þegar börn heyra svona, þá fá þau staðfestingu á því að þau geti ekki orðið góð í stærðfræði. Ég hefði viljað að þetta barn hefði fengið að heyra “auðvitað getur þú orðið góður í stærðfræði, en þig þarf að langa til þess og þú þarft að vera tilbúinn að leggja á þig vinnuna sem þarf.”

En hvernig getum við fengið nemendur til þess að trúa á eigin getu og trúa því innst inni að þeir geti t.d. orðið góðir í stærðfræði ef þeir leggja hart að sér við námið?

Einn mjög stór þáttur í því, er að kennarar hafi þessa trú og vitneskju og miðli henni til nemenda. Ég geri mér engan veginn grein fyrir því hversu stórt hlutfall kennara trúir því að sumir nemendur geti ekki lært stærðfræði, líklega er það ekki hátt. En á hverju einasta ári fæ ég til mín nemendur sem segja mér að einhver kennari hafi sagt við þá að þeir gætu aldrei orðið góðir í stærðfræði, sem varð til þess að þeir hættu að reyna að leggja á sig og gáfust upp í stærðfræði.

Á námskeiðunum hjá mér (og í kennslustofu) legg ég alltaf áherslu á að segja nemendum frá rannsóknum sem staðfesta að allir geta lært stærðfræði og allir geti orðið góðir í stærðfræði, ásamt því að kenna nemendum hvernig heilinn þeirra virkar, þjálfa nemendur í að tileinka sér vaxandi hugarfar í stærðfræði, kenna þeim að nálgast stærðfræði svo eitthvað sé nefnt. Kannski þarf að bæta við námsskránna að kenna nemendum á sinn eigin heila, segja þeim frá rannsóknum sem sýna að þeir geti lært allt, kenna þeim námstækni, minnistækni og hvernig þeir fara að því að þjálfa vinnusemi í fögum eins og stærðfræði sem krefjast mikillar einbeitingar í langan tíma.

Hver er þín skoðun á þessu? Ert þú með eitthvað ráð eða tillögu til að sjá til þess að nemendur haldi ekki að sumir fæðist góðir í stærðfræði og það sé lítið sem þeir geti gert?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
Hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: