Ég heyri alltaf annað slagið “til hvers að læra þetta, það er hægt að gúggla þetta?”. En staðreyndin er sú að þó að við getum gúgglað hitt og þetta, þá eykst skilningur okkar ekki neitt.
Það er til smáforrit (eða app) sem margir unglingar nota og heitir PhotoMath. Nemendur geta tekið mynd af dæmi og fengið strax sundurliðað skref fyrir skref hvernig dæmið er leyst. Frábært smáforrit – ef það er notað rétt.
Kostirnir við PhotoMath eru að þetta nýtist nemendum mjög vel sem eru fastir í einhverju dæmi og hafa engan hjá sér til að aðstoða sig. Þeir geta þá tekið mynd af dæminu og farið í gegnum skrefin sem PhotoMath er með og reynt að læra af þeim.
En ókosturinn við PhotoMath, er að nemendur verða oft háðir því. Þeir hætta að reyna mikið við dæmin, skoða strax lausnina og skrifa hana upp án þess að skilja nægjanlega vel hvað PhotoMath var að gera. Svo kemur næsta dæmi sem er mjög sambærilegt, nemendur skrifa það upp og ákveða fljótlega að það sé erfitt og fá strax svar frá PhotoMath. Í þessu tilviki er ekki að eiga sér stað neinn lærdómur og þá finnst mér PhotoMath frekar skemma fyrir en hjálpa.
Annar ókostur við PhotoMath er sá að það eru til mjög margar leiðir til að leysa hvert dæmi og ef nemendur sjá lausnina sem PhotoMath kemur með og hún er ólík þeirri sem þeir hefðu notað, þá halda nemendur oft að þeir hefðu ekki getað leyst dæmið sjálfir.
Þegar ég er að kenna í kennslustofu, þá segi ég nemendum aldrei strax hvernig á að reikna dæmið sem þeir eru stopp á. Ef dæmið er líkt dæminu á undan og þeir náðu að leysa það – þá spyr ég “hvernig er þetta dæmi örðuvísi en dæmið á undan sem þú náðir að leysa” og svo bíð ég rógleg hjá þeim þar til þeir eru búnir að fatta hvernig þeir geta leyst dæmið sjálfir með sinni aðferð.
Ég vil taka fram að ég er mjög hrifin af þessu smáforriti. Ég nota það sjálf og segi nemendum mínum frá því – en vara jafnframt við því að skrifa bara upp svarið. Nemendur verða að skilja svarið og síðan gera allt sem þeir geta til að ná að yfirfæra þann skilning til að geta leyst næsta sambærilega dæmi.
Hefur unglingurinn þinn verið að nota PhotoMath annað hvort heima eða í tímum? Veistu hvort hann hafi náð að læra mikið af því að nota það? Þú matt endilega spyrja hann og senda mér svarið.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
https://staerdfraedi.is/