Hvernig nemendum gengur í námi veltur ekki eingöngu á kennaranum eða kennslubókinni, heldur geta góðar námsvenjur gert það að verkum að nemendur nálgast efnið með þeim hætti að þeir nái virkilega góðum tökum á efninu.
En hvernig eiga nemendur að læra, til að ná góðum tökum á nýju efni?
Ég flokka hvernig nemendur læra í þrjú stig:
1. Kannast við, en kann ekki
Þetta stig er þannig að nemandi les einhvern texta í t.d. sögu. Svo þegar hann heyrir kennarann segja frá efninu í tíma, þá kannast hann við allt saman en í raun kann hann ekki efnið. Ef hann ætti sjálfur að segja frá, þá gæti hann lítið sem ekkert sagt.
2. Kann efnið nokkurn veginn
Nemandinn les yfir efni og les efnið jafnvel nokkrum sinnum. Honum finnst hann kunna efnið vel, því þegar hann les það yfir í annað og þriðja skipti, þá hljómar efnið mjög kunnulega. Þegar kemur að prófi þá kann hann ekki eins mikið og hann hélt, honum finnst hann gleyma því sem hann las. Hann getur svarað nokkrum spurningum og náð prófinu.
3. Kann efnið mjög vel
Nemandinn les efnið yfir, lokar bókinni eftir hvern kafla og endursegir það sem kom fram í kaflanum. Þessi aðferð er miklu meira krefjandi, en verður til þess að upplýsingarnar sem hann les festast nánast strax í minni.
En hver er eiginlega munurinn á þessum þremur stigum þegar kemur að því að setjast niður og læra? Það skiptir nefnilega máli þegar nemendur setjast niður til að læra efni, hvernig þeir ætla að nálgast efnið og læra það. Heilinn er þannig að hann les og man upplýsingarnar á allt annan hátt eftir því hvort markmiðið er að kunna efnið svo vel að geta kennt öðrum í stað þess að markmiðið sé að “renna” bara einu sinni yfir textann.
Ef ég ætti að gefa þér eitt gott ráð, þá væri það að hvetja unglinginn þinn að læra alltaf efni (sama í hvaða fagi það er) eins og hann sé að fara að kenna öðrum efnið. Ef hann nálgast efnið með það hugarfar má mun hann skilja og kunna efnið miklu betur.
En hvernig virkar þetta t.d. í stærðfræði?
Ef unglingurinn þinn er að læra nýtt efni í stærðfræði, þá getur hann byrjað að skoða sýnidæmi og fara vel í gegnum hvernig það er leyst.
Þegar hann telur sig hafa náð góðum tökum á sýnidæminu þá tekur hann autt blað og skrifar t.d. dæmið efst á blaðið og án þess að kíkja í bókina. Fer svo upphátt yfir hvernig á að leysa dæmið skref fyrir skref. Ef það tekst vel, þá er hann kominn með góð tök á efninu. Ef ekki, þá er bara að fara aftur í gegnum sýnidæmið og taka síðan aftur autt blað og reyna aftur.
Í öðrum fögum, eins og sögu, þá er þetta svipað. Unglingurinn þinn les texta sem tilheyrir einni fyrirsögn (gott hafa efnið styttra til að byrja með). Síðan lokar unglingurinn þinn bókinni og reynir að endursegja textann sem hann var að lesa. Það er í góðu lagi að það takist ekki nema í þriðja eða fjórða skiptið – enda er þetta bara æfing í að læra, með það að markmiði að kunna efnið svo vel að hann geti kennt öðrum.
Ef þú ert með einhverjar spurningar út í þetta, hikaðu ekki við að spyrja með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is
PS. Átt þú ungling sem þarf að styrkja grunninn í stærðfræði og sjálfstraustið? Ef svo er, þá gæti verið námskeið hjá mér myndi henta honum.
Ef þú hefur einhverjar spurningar út í námskeið hjá mér fyrir þinn ungling, spurðu mig þá endilega með því að senda mér póst á hjalp@staerdfraedi.is