fbpx

Þekkingarblekking eða prófkvíði?

Er unglingurinn þinn haldinn þekkingarblekkingu?

Þekkingarblekking (e. fluency illusion) er þegar hugur okkar platar okkur til að halda að við vitum meira um eitthvað efni en við gerum í raun og veru.

Þetta getur átt sér stað þegar nemandi skoðar sýnidæmi og finnst hann skilja það vel, fer síðan strax yfir í að reikna dæmi og er stöðugt að herma eftir sýnidæminu og ekki að leggja mikinn skilning í dæmið. Honum finnst dæmin nánast létt og er sannfærður um að hann kunni efnið af því hann er að endurtaka sama hlutinn aftur og aftur. En svo þegar hann sér þetta sama efni á prófi, þá kemur í ljós að hann kunni efnið ekki nægjanlega vel.

Í lestrarfögum er það oft þannig að nemandi les sama efnið yfir aftur og aftur, strikar jafnvel undir mikilvægustu atriðin. Hann rennir yfir textann fyrir próf og finnst allt sem hann les hljóma mjög kunnuglega. En svo þegar hann mætir í prófið þá getur hann ekki svarað öllum spurningunum og heldur að prófkvíði hljóti að vera skýringin fyrir þessu slæma gengi. Staðreyndin er bara sú að nemandinn var ekki að læra með skilvirkum hætti og tryggja að upplýsingarnar færu beint í langtíma minnið.

En hvað er þá trixið við að hætta að falla fyrir þekkingarblekkingunni?
Það er mjög einfalt.

Í hvaða fagi sem er t.d. stærðfræði, sögu, landafræði,… þá lærum við fljótast með því að tileinka okkur ákveðna tegund af virku námi (e. active learning) sem felst í því að skoða efnið sem við erum að fara yfir mjög vel, loka síðan bókinnitaka autt blað og fara aftur í gegnum sýnidæmið í stærðfræði eða draga fram helstu atriðin í textanum sem þú varst að lesa eins og þú sért að fara að kenna öðrum þetta efni. Ef það gengur vel að fara í gegnum sýnidæmið eða skrifa upp aðal atriðin (án þess að kíkja í bókina!), þá kunnum við efnið – annars ekki.

Þrátt fyrir að þessi aðferð sé afskaplega einföld, þá reynir hún svakalega mikið á heilann og það er kannski þess vegna sem margir forðast hana og fara yfir í þægilegar aðferðir eins og endurlestur, yfirstrikun, skrifa beint upp texta úr bók sem allt eru aðferðir sem eru samkvæmt rannsóknum óskilvirkar, tímafrekar og fara ekki í langtíma minnið.

Einhverjir foreldrar munu eflaust segja að þeir hafi nú aldrei “lokað bók og tekið autt blað” en samt gengið ágætlega í prófum. En það eru til aðferðir sem virka alveg, en þær taka langan tíma og eru ekki alveg eins skilvirkar. T.d. hjálpar það nemendum mikið ef lestrarbækurnar eru með spurningum aftast í hverjum kafla. Þessar spurningar hjálpa okkur að skilja efnið betur og reyna að endurkalla það sem við lásum. Einnig hjálpar til að vera með góða kennara sem ná að fara yfir efnið með þeim hætti að við skiljum það eða munum það betur. Einnig er betra að gera útdrátt í stað þess að strika undir, svo margir hafa eflaust nýtt sér einhverja útfærslu af þeirri aðferð.

Ef þú nennir að deila með mér hvernig þú lærðir fyrir mikil lestrarfög þegar þú varst í grunn- eða framhaldsskóla, þá hefði ég mjög gaman að heyra af því, svo ekki hika við að senda á mig póst með því að svara þessum pósti.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: