fbpx

Þarft ekki að kunna til að hjálpa

Hefur þú lent í því að þinn unglingurinn þinn er alveg stopp í stærðfræðinni þegar hann er að læra heima? Kannski hefur þú einhvern tíma hugsað hvað það væri nú gott að kunna þetta efni (enn) til að geta hjálpað.

En stærðfræði er þannig fag, að það er ekki nein hjálp í því að fá mikla og beina hjálp. Ef unglingurinn þinn er stopp á einu dæmi, þá hjálpar ekki að þú sýnir hvernig þú myndir reikna dæmið, því þá eru ágætis líkur á að hann stoppi strax aftur á næsta dæmi.

Besta hjálpin sem hægt er að veita í stærðfræði, að mínu mati, er að spyrja góðra spurninga. Þú þarft sem sagt ekki að setja þig inn í efnið í stærðfræði, heldur bara spyrja og fá unglinginn þinn til að taka ábyrgð, rannsaka og svara spurningum sem þú kemur með.

Þú þarft ekki að kunna neitt í stærðfræði, til þess að geta hjálpað þínum unglingi í stærðfræði


Tökum dæmi.

Unglingurinn þinn er heima að læra. Hann er búinn að lesa yfir sýnidæmi í bókinni, finnst hann skilja það vel. Hann skrifar upp fyrsta dæmið, en er alveg stopp, getur ekki leyst dæmið.

Þá hjálpar ekki að sýna honum hvernig dæmið er leyst. Það sem þú sem foreldri getur gert er að hvetja hann til að rannsaka sjálfur hvers vegna hann getur ekki leyst dæmið.

Það var sýnidæmi á undan dæminu sem honum fannst hann skilja, en líklega er eitthvað í sýnidæminu sem hann skildi ekki fullkomlega. Þá er t.d. hægt að segja við unglinginn:

Prófaðu að rannsaka sýnidæmið betur. Það er einhver vísbending í sýnidæminu sem á að hjálpa þér að leysa dæmið, rannsakaðu það og sjáðu hvort að það sé eitthvað sem þú misstir af.

Láttu hann endilega tala upphátt og fara yfir þetta, þú þarft alls ekki að setja þig inn í efnið bara styðja við að og minna á að stærðfræði sé rannsóknarvinna og hann þurfi að rannsaka þetta betur sjálfur.

—–

Það er svo algengt þegar nemendur byrja á nýju efni, að þeir fari hratt yfir allar útskýringar án þess að ná góðum tökum á efninu og bruna samt áfram og stoppa á hverju einasta dæmi.

Það er miklu betra að verja miklum tíma í að skilja nýtt efni virkilega vel. Fara í gegnum sýnidæmið, tala upphátt, teikna mynd og nota “autt blað” aðferðina. Þegar sú aðferð er notuð þá eru miklar líkur á að unglingurinn þinn nái virkilega góðum tökum á efninu sem verið er að fara yfir.

Auðvitað er það mjög tímafrekt, en það mun samt spara tíma því það er miklu tímafrekara að stoppa á hverju einasta dæmi.

Til að sanna að við sem foreldrar þurfum ekki að kunna stærðfræði til að geta aðstoðað heima í stærðfræði, þá á ég ungling í framhaldsskóla sem ég hef verið að aðstoða í efnafræði og eðlisfræði.

Ég man ekkert og skil ekkert í efnafræði og eðlisfræði (en kunni það einu sinni). Ég set mig ekkert inn í efnið og átta mig ekkert á því sem er að gerast – en ég spyr bara spurninga sem hvetja unglinginn minn til að rannsaka betur, fara til baka og leita að vísbendingum sem koma honum áfram, bið hann að tala upphátt og lýsa því sem hann er búinn að gera o.s.frv.

Stærðfræði gengur ekki út á að vera fljótur að fatta, vera snöggur að reikna og fá alltaf rétt svar – heldur andstæðan. Stærðfræði gengur út á að rannsaka, ná virkilega góðum skilningi á efninu og verja góðum tíma í að ná tökum á nýju efni. Þess vegna skiptir máli að við kennum unglingnum okkar að sýna þolinmæði og kennum honum að nota rannsóknar hugarfar við að leysa dæmin í stærðfræði.

Best kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

by

Tags: