fbpx

Þakkargjörðardagurinn og heilinn okkar

Þrátt fyrir að Íslendingar haldi ekki upp á þakkargjörðardaginn og kannski óþarfi að apa upp allar erlendar hefðir, þá er ýmislegt jákvætt sem við getum lært af þeirri hátíð.

Þegar ég bjó í Bandaríkjunum þá kynntist ég þessari skemmtilegu hefð sem er mun alvarlegri og hátíðlegri hjá þeim en jólin hjá Íslendingum. Bandaríkjamenn leggja mikla áherslu á boðskap þessarar hátíðar. Þeir hugsa um hvað þeir eru þakklátir fyrir og er það hluti af þessari hátíð að vera meðvitaður um það.

Í skóla dóttur minnar var líka mikið hugsað um þakklæti, nemendur deildu hvað þeir væru þakklátir fyrir sem er virkilega góð æfing í því að venja sig á að vera þakklátur.

Þakkargjörðardagurinn og heilinn okkar
Þegar við höfum það sem vana að vera þakklát, þá breytist heilinn og fer að taka eftir því jákvæða

Þú hefur kannski heyrt að það sé sniðugt að vera með þakklætisdagbók eða einhvern vana til að tryggja það að á hverjum degi sért þú að hugsa eða skrifa hvað þú sért þakklátur fyrir. Hér áður fyrr var þetta pínu “vúvú”, það var bara skrýtna fólkið sem gerði svoleiðis. En síðustu ár hefur þetta orðið mun algengara og eðlilegra.

En hvað skyldu rannsóknir tengdar heila- og taugavísindum segja um svona þakklætis hugsanir?

Rannsóknir hafa sýnt að það að þjálfa sig í að vera þakklátur, hefur áhrif á vírun heilans og veldur því að við tökum frekar eftir því sem er jákvætt í kringum okkur.

Við höfum flest heyrt samlíkinguna við það að “ef þú kaupir þér gulan bíl, að þá ferðu allt í einu að sjá gula bíla út um allt, miklu fleiri en þú hafðir séð áður”. Auðvitað eru ekki fleiri gulir bílar á götunum allt í einu, en heilinn þinn tekur bara eftir þeim núna af því að þú varst að fá þér gulan bíl.

Það er sambærilegt að gerast með þakklætið. Ef við æfum okkur í því að vera þakklát og komum því upp í daglegan vana, þá endurvírast heilinn okkar og við förum að sjá og taka frekar eftir því góða í kringum okkur (alveg eins og með gula bílinn).

En hvernig getum við látið unglinginn okkar nýta sér þetta þannig að þetta hafi jákvæð áhrif á hann?

Þegar ég var að kenna í kennslustofu, þá skrifaði ég stundum á töfluna “ef þú hefur ekkert jákvætt að segja, slepptu því þá”.

Unglingar (án þess að ég sé að alhæfa) eiga það stundum til að venja sig á að gagnrýna og tala aðra niður. Þetta getur t.d verið að gera grín að útliti, kyni, áhugamálum eða klæðaburði annara. Sem sagt leita uppi það sem er öðruvísi í fari annara og gera grín að því. Þetta er leiðinlegur ávani og um að gera að minna unglinginn á að það sé betra að sleppa því.

Unglingurinn þinn getur prófað að mæta einn dag í skólann þar sem hann hefur það markmið að segja EKKERT neikvætt upphátt um annan nemanda eða við annan nemanda. Best væri einnig að hann nýtti tækifærið til að segja eitthvað jákvætt, í stað þess að segja ekki neitt. Ef það gengur vel, þá mun honum mjög líklega líða betur en áður í lok dags.

Það er mikilvægt að unglingurinn þinni viti að hann getur vírað heilann sinn þannig að hann taki frekar eftir því góða í fari annarra. Heimurinn er alls konar og ef æfum okkur í því að taka eftir því sem er jákvætt, þá förum við að veita því meiri athygli og um leið líður okkur betur.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: