Flestir grunnskólar eru með lokapróf í komandi viku og mér fannst því viðeigandi að minnast á eitt próftækniatriði sem er gott að tileinka sér við prófundirbúning.
Ég er nokkuð viss um að unglingnum þínum finnist hann þurfa að muna svo mikið af ólíkum aðferðum fyrir stærðfræðipróf, en staðreyndin er sú að yfirleitt er hægt að koma fyrir öllum atriðum “sem honum finnst hann þurfa að muna” á eitt blað! Það er hægt að kalla þetta blað svindlmiða eða glósublað og gott að hugsa um það sem blað sem unglingurinn ímyndar sér að hann megi mæta með í prófið.
Á samræmdu námskeiðunum mínum sem eru 4 og 5 vikna námskeið. Þá kenni ég nemendum að byrja strax að glósa öll atriði sem þeim finnst þeir þurfa að muna á ákveðið blað. Því þá er svo miklu auðveldara að rifja upp fyrir próf og þá kemur líka í ljós að atriðin sem þeim finnst þeir þurfa að muna eru ekki eins mörg og þér héldu (enda snýst stærðfræði ekki um utanbókarlærdóm).
En hvenær á unglingurinn þinn að byrja að glósa á glósublaðið fyrir próf?
Svar: um leið og hann byrjar að undirbúa sig fyrir prófið. Það getur verið tveimur vikum fyrir próf, það getur líka verið kvöldið fyrir próf.
Hvernig á glósublaðið að líta út?
Svar: ekki skrifa orðrétt upp úr bókinni, það er best ef hann notar sitt orðalag (enginn annar þarf að skilja glósurnar).
Hvaða gagn er af þessu glósublaði ef hann má ekki taka það með í prófið?
Svar: ef hann er með öll atriði sem honum finnst hann þurfa að muna á einu blaði, þá verður öll upprifjun fyrir próf ekki eins yfirþyrmandi og yfirleitt muna nemendur líka mjög vel allt sem þeir skrifuðu á þetta blað.
Veistu hvort að þinn unglingur fái stuðning og ráðgjöf frá kennaranum sínum til þess að undirbúa sig fyrir lokaprófið í stærðfræði?
Hvenær og hvernig lærðir ÞÚ að undirbúa þig markvisst fyrir stærðfræðipróf? Kenndi þér það einhver eða þurftir þú að læra það sjálf(ur)?
Ef þú hefur einhverjar spurningar – hikaðu ekki við að hafa samband með því að svara þessum pósti eða senda mér póst á hjalp@staerdfraedi.is
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
https://staerdfraedi.is/