fbpx

Stærðfræði og könguló

Finnst flestum nemendum gaman að reikna létt stærðfræðidæmi?

Svarið við þessu er já! – enda er heilinn hannaður til að forða okkur frá óþægindum og rannsóknir hafa sýnt að sama svæði í heilanum lýsist upp þegar nemandi sér flókið stærðfræðidæmi og könguló – enda bæði stórhættuleg!

Stærðfræði og könguló
Stærðfræði og könguló eiga sér svolítið sameiginlegt…

En hvaðan kemur þessi hræðsla?

Hræðslan kemur af misskilning um hvað stærðfræði gengur út á. Nemendum er kennt að þeir verði að læra ákveðna aðferð við að reikna dæmi, þeir eiga helst að vera fljótir að fatta og svona til að þetta sé alveg á hreinu, þá eru próf með ákveðinn tímaramma til að allir nemendur viti það að maður eigi að vera snöggur að fatta og stærðfræði snúist um hraða.


En eru til stærðfræðidæmi sem eru erfið, en nemendum finnst samt gaman að takast á við og upplifa ekki köngulóa hræðslu við að sjá þau dæmi?

Já. Nemendur hafa rosalega gaman af því að leysa krefjandi og skemmtileg stærðfræðidæmi ef dæmin heita gátur og eru unnar í hópi eða með kennara.

Þegar ég var að kenna í kennslustofu, þá endaði ég yfirleitt alla tíma á einni gátu upp á töflu. Nemendur elskuðu það, voru spenntir þegar líða tók á stærðfræðitímann því að þá var stutt í gátuna.

Þegar nemendur leysa gátu þá er viðhorfið allt annað, þeir vita að þetta er “ógeðslega” erfitt, þeir vita að þeir eiga í raun ekki að geta leyst gátuna strax og það hvarflar ekki að þeim að hætta og gefast upp þrátt fyrir margar tilraunir – ef eitthvað er, þá eykst áhuginn eftir því sem röngu svörunum fjölgar.

Nemendur ljóma upp, þeir elska áskorun!

Það sem var líka skemmtilegt við þessar gátustundir var að þeir nemendur sem þóttu sterkastir í stærðfræði og flestir nemendur álitu sem góða í stærðfræði, voru yfirleitt ekki þeir nemendur sem reyndu mest eða voru góðir í gátum. Þetta var því frábært tækifæri til að styrkja sjálfstraust hinna í stærðfræði.


En hvernig getum við yfirfært þetta yfir á stærðfræðidæmi? Auðvitað er ekkert eitt einfalt svar við því, en það er hægt að byrja á því að kenna nemendum að nálgast öll stærðfræðidæmi eins og rannsóknarverkefni (eða gátu):

  • Stærðfræðidæmi eiga að vera erfið
  • Nemendur eiga ekki endilega að geta leyst dæmi í fyrstu tilraun
  • Því fleiri villur, því nær eru þeir að geta leyst verkefnið


Stærðfræði gengur út á vinnusemi og þrautseigju og ef þig langar að æfa unglinginn þinn í þrautseigju, þá er hægt að nálgast skemmtilegar gátur á netinu. Þið getið t.d. prentað og klippt út eina gátu og sett á ísskápinn á föstudagsmorgni, þar sem allir fjölskyldumeðlimir eiga að reyna sjálfir og svo er hægt að koma með tillögur að lausn yfir pizzum um kvöldmatarleytið.

Menntamálastofnun er með margar rosalega skemmtilegar gátur (og svör) sem þið getið notað. https://vefir.mms.is/thrautir/
Passið bara að unglingurinn viti ekki hvaðan gátan kemur, svo hann fari ekki að gúggla svarið.

Ef þú prófar þetta, þá máttu endilega láta mig vita hvernig þetta fer. Þegar þú ert uppiskroppa með gátur, þá getur þú látið unglinginn þinn finna einhverja gátu fyrir hina í fjölskyldunni til að leysa.


Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: