Núna hafa skólaslit farið fram í grunnskólum landsins.
Ég er í kennarahóp á facebook og þar skapaðist mikil umræða um einkunnagjöf í tengslum við skólaslitin. Þetta byrjaði á því að ein móðir skrifaði um það hvernig næstum allir nemendur í 10. bekk voru kallaðir upp á svið og fengu verðlaun fyrir að fá A og aðeins örfáir nemendur voru ekki kallaðir upp. Dóttir þessarar konu var ein þeirra fáu sem ekki var kölluð upp.
Ég held að flestir séu sammála um að þetta sé ekki góð leið. En svo eru margir ósammála um hvernig ætti að haga útskrift í 10. bekk. Sumum finnst að það eigi ekki að veita neinar verðlaunir á meðan örðum finnst nauðsynlegt að verðlauna þá sem hafa lagt gríðarlega mikið á sig til að ná góðum árangri námslega séð.
Út frá þessum umræðum var líka verið að tala um einkunnir og þá er mjög ólíkt eftir skólum hvernig einkunnin A er skilgreind. Í sumum skólum er hægt að fá A ef þú færð allt rétt í öllum hlutaprófum á meðan í öðrum skólum er ekki hægt að fá A nema nemandinn sé kominn í efni sem tilheyrir framhaldsskólastigi.
Það er auðvitað mjög ósanngjarnt að skólar séu ekki með samræmi á milli einkunna í bókstöfum sérstaklega þar sem framhaldsskólarnir taka mið af þeim.
Mitt mat á einkunnakerfi í grunnskólum er að það ætti að gefa einkunnir í tölustöfum eins og gert var fyrir nokkrum árum og bæta við skriflegri umsögn. Ástæðan er fyrst og fremst sú að hver skóli er núna með sínar eigin skilgreiningar á hvað liggur að baki hvers bókstafs. Margir skólar eru með próf sem eru með stig eða vægi og síðan er þeim tölum varpað yfir í bókstafi. T.d. veit ég um einn skóla þar sem einkunnin 9,3 í hlutaprófi í stærðfræði jafngildir A á meðan annar skóli skilgreinir að nemandinn þurfi að fá 9,7 á prófinu til að fá A og svo enn annar skóli sem segir að enginn fái A þrátt fyrir að fá 10 á prófinu nema nemandinn sé kominn í framhaldsskólaefni.
Ef það á að nota bókstafi sem matskvarða í grunnskólum þá finnst mér að það þurfi að nota aðra bókstafi en A, B og C þar sem þeir hafa allt aðra merkingu annars staðar í heiminum. T.d. er C í Bandaríkjunum einkunn á bilinu 7-8 á meðan bókstafurinn C á íslandi þýðir að nemandi náði bara hluta af hæfniviðmiðunum og ef hann er að klára 10. bekk og fær C í stærðfræði þá þarf þessi nemandi að taka aftur grunnskólastærðfræði í framhaldsskóla.
Skv. aðalnámskrá grunnskólanna er ekki gert ráð fyrir að nemendur fái A, það er einungis hugsað fyrir framúrskarandi nemendur sem eru t.d. byrjaðir í framhaldsskólastærðfræði. B á Íslandi (við útskrift í 10. bekk) er því einkunn á bilinu 5-10, eins og við foreldrar þekkjum frá því við vorum í skóla. Nemendur sem fá C+ og C, þurfa að taka einn grunnskólaáfanga í framhaldsskóla og nemendur sem fá D+ eða D þurfa að taka tvo grunnskólaáfanga í framhaldsskóla.
Veist þú hvernig einkunnagjöf er háttað í skólanum sem þitt barn eða unglingur er í?
Hvernig myndir þú vilja að einkunnagjöfin væri við grunnskólalok?
Þú mátt endilega svara þessum pósti og segja mér hvað þér finnst um einkunnakerfi í grunnskólum og hvort sem þú ert sammála mér eða ekki.
Gyða stærðfræðikennari