Langþráð páskafrí er að hefjast og ég veit að sumir nemendur kjósa að taka sér alveg frí frá öllu námi á meðan aðrir nota páskafríið sem tækifæri til að vinna upp í þeim fögum sem þeir eru eftirá.
Þegar páskafríið er búið þá eru rúmir tveir mánuðir eftir af grunnskólanum, en í raun bara einn og hálfur þar sem síðustu tvær vikurnar fara yfirleitt í eitthvað annað en hefðbundið nám.
Ef þú hefur verið á póstlistanum mínum í einhvern tíma þá ætti það ekki að koma þér á óvart að ég er ekki hlynnt einkunnum í bókstöfum. Helsta ástæðan fyrir því er mikið ósamræmi milli skóla (sem staðfest var með skýrslu) en einnig fyrir hvað þessi bókstafir standa. Í stuttu máli þá er það þannig að allir ættu að hafa það markmið að fá B (og enginn ætti að fá A) og þeir sem fá ekki B eru “fallnir” í viðkomandi fagi.
Ég hef skrifað nokkra pósta þar sem ég skýri þetta nánar t.d. Hvað þýðir eiginlega A, Framhaldsskólinn – það sem enginn veit, Einkunn er ekki endanleg fyrr en við skólalok, og Stjörnumerking – veistu hvað það er?
Þar sem það styttist í annan endann á skólaárinu, þá er ég byrjuð að hugsa til nemenda í 10. bekk sem vita í raun ekki hvort þeir nái B eða ekki. Flestir eru heldur ekkert að spá mikið í því. En það er gríðarlega mikilvægt að vita nákvæmlega hvar unglingurinn þinn stendur, því bilið milli B og C getur verið mjög lítið – en afleiðingarnar mjög miklar þegar kemur að inntöku í framhaldsskóla. Þetta á þó eingöngu við einkunnir í kjarnagreinunum sem eru stærðfræði, íslenska og enska.
Ef þú átt ungling í 10. bekk og vilt koma í veg fyrir óvænt úrslit í kjarnagreinunum (stærðfræði, íslensku og ensku) í vor, þá mæli ég með því að þú hafir samband við kennarana og spyrjir þá hvar unglingurinn þinn standi nákvæmlega. Er hann mjög ofarlega í B skalanum og mun líklega enda með B eða er hann neðarlega í B skalanum og þarf að halda vel utan um námið til að eiga möguleika á að enda með B.
Auðvita ættu kannski allir foreldrar að spyrja þessara spurninga, því þetta bókstafakerfi segir svo lítið um stöðu nemenda. Það eru einhverjar upplýsingar í Mentor, en ef nemandi er með mikið af B en nokkur C, hversu mikið vægi hafa þessi C, verður það til þess að nemandinn endar með B eða C í lokaeinkunn? Það er huglægt mat hvers kennara í hverjum skóla.
Veist þú hvernig unglingnum þínum gengur í kjarnafögunum? Er hann ofarlega í B skalanum og nánast öruggur eða er hann alveg á mörkunum og þarf að taka sig á til að enda örugglega með B?
Páskafrískveðja
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is