Mín aðferðafræði þegar kemur að kennslu er að leggja áherslu á að breyta viðhorfi nemenda náms og einnig finna leiðir til að hvetja nemendur áfram í námi.
Ég var að lesa grein í Journal of Educational Psychology þar sem fjallað er um rannsókn sem gerð var á um 500 nemendum í 9. og 10. bekk í Bandaríkjunum. Rannsóknarefnið var að kanna hvort það hefur hvetjandi áhrif á nemendur að lesa sögur frægum vísindamönnum eins og Albert Einstein og Marie Curie.
Niðurstöður þessarar rannsóknar er eitthvað sem við sem foreldrar getum nýtt okkur:
1. Það að segja nemendum sögur af vísindamönnum og erfiðleikum þeirra, hafði jákvæð áhrif á einkunnir nemenda. Aftur á móti það að segja nemendum sögur af góðum árangri þessara vísindamanna höfðu engin áhrif.
2. Það skipti ekki máli hvort þessar sögur af erfiðleikum voru tengdar erfiðleikum í lífi þessa vísindamanna eða erfiðleikum í námi. Báðar þessar tegundir sagna höfðu jákvæð áhrif á nemendur og hvöttu þá til að leggja meira á sig og gefast ekki upp.
3. Þessar erfiðleika sögur höfðu meiri áhrif á nemendur sem voru almennt ekki góðir námsmenn.
4. Stærsti hluti nemenda sem las um erfiðleikana (í lífi eða námi) náðu að tengja við sögurnar og vísindamennina – ólíkt þeim nemendum sem lásu um árangurssögur vísindamannanna.
Þessar niðurstöður getum við sem foreldrar (og kennarar) nýtt okkur, þegar við tölum um og finnum fyrirmyndir fyrir börnin okkar. Þ.e.a.s. leggja áherslu á erfiðleikana (í lífi eða námi) því þau tengja betur við þá og það mun hafa hvetjandi áhrif til náms. Það er mikilvægt að koma þeim skilaboðum til barna og unglinga, að þrautseigja og vinnusemi eykur greind og getu og er það sem leiðir til árangurs.
Þegar ég skoðaði sögurnar sem notaðar voru í þessari rannsókn kom skýrt fram að þessir aðilar (eins og Einstein) trúðu því að þeir þyrftu að leggja meira á sig og reyna aftur og aftur til að ná árangri.
En það skiptir máli að erfiðleikasögurnar séu af þeim sem urðu frægir eða náðu árangri á sínu sviði. Það eru nefnilega til rannsóknir sem sýna að það er letjandi og beinlínis hættulegt þegar foreldrar sem náðu ekki tökum á stærðfræði að segja við sín börn sem eiga í erfiðleikum “ekki hafa áhyggjur, ég var heldur ekki góð/góður/gott í stærðfræði”. Rannsóknir sína að börnin samsama sig við foreldra sína og fara að trúa því að þeir geti heldur ekki lært stærðfræði.
Í íþróttastarfi, t.d. golfi, þá hef ég tekið eftir að það er lögð áhersla á þessa erfiðleika hjá íþróttamönnum sem hafa náð árangri. Einn golfklúbburinn er til dæmis með myndir af frægum golfurum uppá vegg með texta þar sem lögð er áhersla á þá erfiðleika sem þeir fóru í gegnum áður en þeir náðu árangri. Flestir íþróttamenn eru meðvitaðir um að það er vinnusemin og þrautseigjan sem gerir þá að enn betri íþróttamönnum.
Þetta mætti gera í meira mæli í skólum. T.d. hengja upp mynd af Albert Einstein, segja frá hans erfiðleikum – til að leggja áherslu á að það er vinnusemi og þrautseigja sem skilar árangri.
Hvað getur þú sem foreldri gert til þess að hvetja þitt barn eða ungling í námi? T.d. segja þeim sögur af fólki sem náð hafa árangri á sínu sviði – þrátt fyrir erfiðleika (hvort sem það var í daglegu lífi eða námi). Það að koma með skýr skilaboð um að þetta snúist ekki um meðfædda eiginleika, heldur vinnusemi og þrautseigju skiptir miklu máli. Það eru enn margir (allt of margir) nemendur sem trúa því innst inni að þeir geti ekki lært stærðfræði og það að vera góður í stærðfræði hafi eitthvað með meðfædda hæfileika að gera.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is