Núna eru bara nokkrir dagar eftir af árinu og mig langaði að hafa síðasta póst ársins í formi annáls.
Eftir að hafa reynt að skrifa mikinn texta og svo eyða honum nokkrum sinnum, þá áttaði ég mig á því að ég hafði ekkert áhugavert að segja í þessum annál mínum! En það stendur þó eitt uppúr sem ég get nefnt.
Í maí sl. tók ég endanlega ákvörðun að hætta sem stærðfræðikennari í kennslustofu. En ég hef verið í fullu starfi hjá Námsflokkum Reykjavíkur síðustu átta ár. Tíminn flýgur þegar það er gaman og það var sko sannarlega gaman að kenna, enda vann ég með frábæru fólki og fékk tækifæri á að smita fjöldann allan af nemendum af brennandi stærðfræðiáhuga. En það er mikið álag að vera í tveimur stórum verkefnum og svo er líka mikið álag að kenna á covid tímum svo ég tók ákvörðun um að núna væri rétti tíminn til að einbeita mér af fullum krafti að stærðfræði.is.
Þrátt fyrir að flestir horfi á árið í heild sinni, þá finnst mér skólaárið eiga mun betur við mig. Núna er ekki nýtt ár að byrja, heldur er skólaárið hálfnað. Þá er einmitt tækifæri að meta stöðuna og enn nægur tími til að gera miklar breytingar fyrir lok skólaárs í vor.
Þessi tími er sérstaklega mikilvægur fyrir nemendur í 10. bekk þar sem tíminn í útskrift styttist óðum. En þá vil ég minna alla foreldra nemenda í 10. bekk á að nemendur eiga samkvæmt Aðalnámskrá grunnskólanna að fá tækifæri á að bæta sig alveg fram að skólalokum. (En ég lofa samt ekki að skólar séu almennt tilbúnir að gefa nemendum tækifæri á því). Það er því frábært tækifæri að skoða hvort nemendur séu sáttir við það námsmat sem þeir eru komnir með og hvort þeir séu tilbúnir að leggja á sig auka vinnu til að fá endurmat á hæfninni.
En þessi seinni hluti skólaársins er líka spennandi fyrir nemendur í 4., 7. og 9. bekk, því þessir árgangar munu fara í samræmd próf í mars n.k. Eins og staðan er í dag, þá er gert ráð fyrir að nemendur í þessum árgöngum taki samræmdu prófin á pappír til að koma í veg fyrir tæknileg vandamál í líkingu við þau sem hafa verið að koma upp síðustu ár.
Samræmdu prófin hafa fengið slæmt orð á sig. Ég heyri suma kennara og foreldra fussa og sveia yfir samræmdu prófunum eins og þau séu einhver tímaleysa. En skv. lögum ber að hafa samræmt námsmat á Íslandi og allir skólar í löndunum í kringum okkur eru með samræmt námsmat þó útfærslan sé ólík.
Það er ekki hægt að hætta með samræmdu prófin og halda að við getum verið laus við samræmt námsmat. Við þurfum að sjálfsögðu að hafa eitthvað samræmt mat á stöðu nemenda í grunnskólum, en það liggur fyrir í framtíðinni að breyta fyrirkomulaginu þannig að prófin verði bútuð niður og skólanir hafi tækifæri á að meta sína nemendur þegar þeim hentar (samt innan ákveðins tímaramma).
Það sem mér finnst svo jákvætt við samræmdu prófin er að þau eru tækifæri og hvatning fyrir marga nemendur til að taka sig á í stærðfræði. Margir hafa breytt viðhorfi sínu til stærðfræði eingöngu með því að undirbúa sig vel undir þessi próf.
Annað sem mér finnst jákvætt við samræmdu prófin er að allir nemendur fá tækifæri til að sýna hvar þeir standa og einkunnin sem þeir fá úr þessum prófum er ekki huglægt mat og hefur ekkert með hegðun í tímum eða skólasókn að gera.
Svo veit ég um nokkur dæmi þar sem nemendur gátu nýtt samræmdu einkunnina sína í 9. bekk til að sleppa við áfanga í framhaldsskóla. Þannig að ef nemendum gengur mjög vel í þessum prófum þá geta þau nýtt þá einkunn til að staðfesta góða kunnáttu í fögunum.
Ef nemendum gengur ekki vel, þá er það tækifæri til að sjá hvar nemendur þurfa að bæta sig. Enda er það markmið prófanna að sjá hvar nemendur standa og veita þeim betri stuðning þar sem þeir geta bætt sig. Ég gæti því trúað að viðhorf bæði foreldra og kennara til samræmdu prófanna væri jákvæðara ef þau væru sannarlega nýtt til að bæta stöðu nemenda – eins og markmið prófanna er skv. Menntamálastofnun.
Gleðilega hátíð
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is