Símar í stærðfræðitímum

Ég hef verið að kenna stærðfræði á framhaldsskólastigi frá árinu 2013, en hef einnig reynslu af kennslu á unglingastigi grunnskóla áður en símarnir urðu allsráðandi. Það hvarflaði ekki að mér fyrstu árin að banna síma í tímum. Ég fann að fyrir flesta nemendur þá var gott að geta hlustað á tónlist til að minnka áreiti í umhverfinu. En ég fann að truflunin af því að nemendur væru með síma jókst jafnt og þétt á milli anna.

Á síðustu önn fór stór hluti af minni orku í að biðja nemendur vinsamlegast að setja símann niður, en þá fékk ég þau svör að þeir væru að skipta um “playlista” eða þyrftu bara að gera smá í símanum. Einnig sá ég að þróunin var í þá átt að það var verið að trufla aðra nemendur, með því að sýna þeim eitthvað rosalega spennandi á símanum.

símalausir stærðfræðitímar

Ég reyndi ýmis ráð, t.d. á síðustu önn datt mér það snilldarráð í hug að merkja tvö borð í kennslustofunni sem símaborð, sem áttu að virka þannig að ef nemendur finndu þörf hjá sér að taka upp símann, þá mættu þeir það, en þyrftu að fara á símaborðið og sinna sínum málum þar. Hugsunin hjá mér var sú að þeir gerðu sér grein fyrir því að þeir gætu ekki lært stærðfræði og verið í símanum á sama tíma. Þetta byrjaði nokkuð vel, en þegar tók að líða á önnina þá var ég farin að gefast upp við að biðja nemendur að fara á símaborðið ef þeir ætluðu að vera í símanum.

Í jólafríinu var ég mikið hugsi um þessi símamál. Dóttir mín hafði verið í grunnskóla þar sem símar voru bannaðir á skólatíma og ég var virkilega ánægð með það fyrirkomulag. Þá vissu allir sem þurftu að ná í þá nemendur, að þeir myndu ekki svara neinum skilaboðum á skólatíma og það fór öll pressa af nemendum við að þurfa að vera snöggir að svara skilaboðum.

Áður en skólinn byrjaði hjá mér á þessari önn, þá var ég ákveðin að banna alveg síma í stærðfræðitímum. Ég vissi ekki hvað ég væri að fara út í. Nemendur gætu ekki lengur hlustað á tónlist í stærðfræðitímum (nema með bluetooth heyrnartólum, án þess að skipta um lagalista á meðan stærðfræðitímanum stóð) og þeir gætu heldur ekki farið inná Innu til að skoða kennsluáætlun eða kennslumyndböndin mín. Ég vissi ekki hvort þetta myndi enda eins og símaborðin, en ég bara varð að gera eitthvað.

Ég fann kassa heima hjá mér sem mér fannst upplagður til þess að fylla af símum og við upphaf fyrsta tímans þá stóð ég brosandi og vingjarnleg við hurðina og sagði “ stærðfræði eru símalausir tímar” og rétti fram kassann.

Sumir nemendur, sérstaklega nemendur sem höfðu verið hjá mér áður, reyndu að sannfæra mig um að þeir gætu bara ekki verið í stærðfræði án þess að hafa símann hjá sér og einhverjir sögðust þá þurfa að hætta í stærðfræði. En ég stóð á mínu með vingjarnlegt bros á vör. Annað hvort væru nemendur að mæta í stærðfræði og setja þá símann í kassann eða þeir væru ekki að fara í stærðfræði.

Hvernig heldur þú að þetta hafi gengið? Ég get sko sagt þér að það fór ekki eins fyrir kassanum mínum og símaborðunum.

Ef ég hefði vitað fyrirfram hvernig þessi tilraun mín, að hafa stærðfræðitímana símalausa hefði gengið, þá hefði ég gert þetta fyrir löngu. Þvílíkur léttir fyrir mig að þurfa ekki að eyða orkunni minni (og truflun fyrir aðra) að biðja nemendur að setja niður símann.

Strax eftir fyrstu vikuna, þá þurfti ég ekki að standa með kassann minn við dyrnar, því nemendur gengu í inn í stærðfræðitíma, tóku upp símann sinn upp og settu í kassann á borðinu mínu eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Í dag, þegar 7 vikur eru liðnar af önninni þá segir enginn neitt, það er ótrúlegur vinnufriður og ég bara finn hvað nemendur ná að einbeita sér vel og hvað þetta hefur jákvæð og góð áhrif á vinnusemi og einbeitingu í stærðfræði. Ég finn líka hvað úthald nemenda hefur aukist. Þeir hafa ekki símann hjá sér til að fara í, um leið og eitthvað verður erfitt, heldur verða þeir að biðja um aðstoð eða reyna sjálfir meira við dæmið eða verkefnið.

Það að mega ekki vera með símann í stærðfræðitímum gerir það að verkum að nemendur geta ekki skoðað kennslumyndbönd eða kennsluáætlun í Innu á meðan þeir eru í stærðfræðitímum. En þá verða þeir að gera það heima hjá sér. Í stærðfræðitímum hjá mér skiptir meira máli að skapa umhverfi þar sem það er góður vinnufriður og nemendur æfa sig í vinnusemi og þrautseigju og fá aðstoð frá mér þegar þeir þurfa. Ég vil ítreka að ég er að kenna stærðfræði á framhaldsskólastigi, en mér finnst enn ríkri ástæða að hafa símalausa stærðfræðitíma í grunnskólum.

Ég er svo ósammála formanni Kennarasambands Íslands, sem vill ekki banna síma í grunnskólum, heldur vill hann kenna nemendum að umgangast símana. Já, einmitt, ef fullorðið fólk getur ekki hamið sig að taka upp símann í öllum aðstæðum sem því leiðist, hvernig getum við ætlast til þess að unglingar hafi það sem þarf til að láta símann vera, þegar hann er rétt innan seilingar og þeim drepleiðist í stærðfræðitíma?

Þú mátt alveg vera ósammála mér, en það er mín sannfæring að það fari ekki saman að vera með símann innan seilingar í stærðfræðitímum.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is