fbpx

Sameiginlegt með PRIME og stærðfræði

Eitt af því sem ég kenni nemendum á námskeiðunum hjá mér, er að allt sem þau sjá og heyra hefur áhrif á þau. Allt í einu er þeim farið að langa rosalega mikið í „þennan síma“ eða „þessa úplu“ eða PRIME drykkinn – en þau vita samt ekki af hverju…

Þess vegna eru auglýsingar – af því að þær virka. En það er líka annað í umhverfi okkar sem hefur áhrif eins og allt sem þeir horfa á í símanum.

Þú sem foreldri hefur kannski fylgst með fréttum síðasta fimmtudag og föstudag, en þá var einmitt verið að fjalla um PRIME drykkinn. Börn og unglingar í grunnskóla voru að skrópa í skólann og taka strætó út um allan bæ til að verða sér út um þennan drykk.

PRIME er lífsstíls drykkur sem er nánast eingöngu markaðssettur á TikTok, Instagram og YouTube. Hann er framleiddur af áhrifavöldum sem kalla sig KSI og Logan Paul. Þeir voru andstæðingar í boxi, en eru núna félagar með mikið magn af fylgjendum (samanlagt 27 milljónir fylgjenda á TikTok þegar þetta er skrifað). Þeir eru einnig búnir að gefa út lag í tengslum við þennan drykk.

Þegar unglingarnir voru spurðir í fréttum hvers vegna þeir væru að kaupa þennan drykk þá vissu þeir eiginlega ekki af hverju. Það var allavega ekki af því að þetta væri gott á bragðið…

Sameiginlegt með PRIME og stærðfræði
Mynd tekin af visir.is

Dæmi um spurningar og svör í fréttum voru:

Af hverju er þetta svona vinsælt? 
„Það eru frægir gaurar sem gerðu þetta held ég.“

Af hverju er þetta svona vinsælt?

„Ég veit það ekki…“

En eruð samt að kaupa tvo?

„Já.“

Þessi drykkur var ekki fáanlegur á Íslandi fyrr en á fimmtudag og í fréttum Stöðvar 2 kom fram að krakkar (á Íslandi) hafa verið að kaupa þennan drykk á svörtum markaði á TikTok fyrir allt að 3000 krónur.

Það sem mér finnst varhugavert er að þessi drykkur er markaðssettur fyrir börn og unglinga, en það er mun auðveldara að hafa áhrif á skoðanir þess hóps þar sem heilinn hjá þeim er enn að þroskast.

En hvað er sameiginlegt með PRIME drykknum og stærðfræði?

Eins og Jo Boaler, prófessor í stærðfræði við Stanford hefur gagnrýnt, þá eru sjónvarpsþættir sem eru markaðssettir fyrir börn og unglinga að tala illa um stærðfræði. Stærðfræðin á að vera leiðinleg, erfið og bara ákveðin tegund af nemendum eru góðir í stærðfræði. Þetta er mjög alvarlegt og hættulegt, þar sem þetta hefur áhrif á þá sem horfa á þessa þætti.

Eftir að ég heyrði hana tala um þetta vandamál í viðtali fyrir (líklega 10 árum) þá fór ég að fylgjast með mínu barni og unglingi horfa á sjónvarpsþætti markaðssettir fyrir þennan aldur. Það kom mér mjög á óvart hversu mikið er talað niður til stærðfræðinnar í þessum þáttum og það getur sannarlega áhrif á viðhorf nemenda til stærðfræði. Þetta eitt getur haft áhrif á það hvað þínum unglingi finnst um stærðfræði.

Sumum nemendum finnst stærðfræði leiðinleg, erfið og ekki fyrir þá – en þeir vita samt ekki nákvæmlega af hverju, alveg eins og með PRIME drykkinn. Börn og unglingar eru að missa sig yfir þessum drykk sem þeir hafa aldrei smakkað en langar rosalega mikið í hann af því að einhverjir frægir gaurar með gríðarlega stóran fylgjendahóp eru sniðugir að markaðssetja þennan drykk.

Það ráð sem ég myndi vilja gefa þér sem foreldri er að ræða við unglinginn þinn og láta hann vita af því að heilinn hans er enn að þroskast og það sé því auðveldara að hafa áhrif á hann. Það er einnig miklu auðveldara fyrir hann að hrífast af fólki sem getur jafnvel haft skaðleg áhrif á hann og farið að móta skoðanir sem eru fordóma- og ofbeldisfullar.

Hér áður fyrr, þá voru forsetar og stjórnmálamenn með mestu völdin, síðan fóru völdin að færast yfir á fjölmiðla og núna eru völdin komin í hendurnar á fólki með stóran fylgjendahóp á samfélagsmiðlum sem margir hverjir hafa mjög auðveldan aðgang að börnum og unglingum.

Það væri gaman að heyra frá þér! Finnst þér barnið þitt eða unglingur farið að vera með skoðanir sem er hægt að rekja beint til samfélagsmiðla? Eru þessi áhrif bara neikvæð?


Bestu kveðjur,

Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: