Ef unglingurinn þinn á í miklum erfiðleikum með stærðfræði, þá er lausnin sjaldnast að láta hann byrja að læra meira heima. Það getur meira að segja gert illt verra.
Gefum okkur að unglingurinn þinn standi höllum fæti í stærðfræði, en sé tilbúinn að taka sig á. Hann er með rétta viðhorfið og veit út á hvað stærðfræði gengur þ.e.a.s. hann veit að:
- hann getur lært stærðfræði og orðið góður í stærðfræði
- hann þarf að nálgast hvert dæmi eins og rannsóknarverkefni
- það er gott að fá villur, því það er tækifæri á að læra eitthvað nýtt
- o.s.frv.
Hann er spenntur að ná góðum tökum á stærðfræði og mjög sáttur við að vera búinn að taka ákvörðun um að ná loksins virkilega góðum tökum á stærðfræði.
Eins og við vitum þá er stærðfræði alltaf að byggja ofan á einhvern grunn. Það eru því ágætis líkur á því að bókin sem unglingurinn þinn sé að nota í skólanum sé einfaldlega ekki nægjanlega góð fyrir einhvern sem ætlar allt í einu að taka sig á.
Það getur því gert illt verra að setja unglinginn í þá stöðu að hann eigi að byrja að læra heima í efni sem fer ekki nægjanlega vel í grunninn sem hann þarf að hafa til að ná virkilega góðum tökum á efninu.
Ef ég tek t.d. dæmi um ungling í 10. bekk sem hefur aldrei náð virkilega góðum skilningi á almennum brotum og hefur ekki náð tökum á að leysa einfaldar jöfnur – þá er ekki hægt að ætlast til þess að þessi unglingur hafi þann grunn sem hann þarf að hafa til að leysa brotajöfnur (jöfnur með almennum brotum).
Það sem getur gerst ef unglingurinn þinn er settur í þessa aðstöðu, er að viðhorf hans til stærðfræði verði enn neikvæðara en áður.
En hvað er hægt að gera? Það fer algjörlega eftir því efni sem unglingurinn þinn er að vinna í, en best væri að fara aðeins til baka í grunninn sem tengist efninu sem hann er að vinna í.
Flestar stærðfræðibækur sem notaðar eru í stærðfræði á unglingastigi eru aðgengilegar á netinu og því hægt að fara til baka og byggja upp góðan grunn áður en hann fer í efnið sem hann ætti að vera að vinna í í skólanum.
Á námskeiðunum hjá mér, þá fer ég vel í allan grunn sem ég veit að skiptir mestu máli að ná virkilega góðum tökum á stærðfræði á unglingastigi. Sumum nemendum finnst skrítið að þurfa að fara yfir einföldustu atriðin aftur, en ef nemendur standa vel að vígi í því efni, þá geta þeir farið mjög hratt yfir það efni.
Ef þú átt ungling sem stendur höllum fæti í stærðfræði, skoðaðu þá endilega hvort hann sé tilbúinn að koma á námskeið hjá mér þar sem hann lærir hvernig sé best að nálgast stærðfræði, lærir hvernig heilinn hans virkar og fær ítarlegt kennsluefni þar sem ég fer virkilega vel í allan grunn sem hann þarf að kunna til að ná góðum tökum á stærðfræði. Eftir hvert kennslumyndband gefst honum svo tækifæri á að fara á gagnvirkan æfingavef og æfa sig í efninu sem ég fór yfir.
Ef hann er til í þetta, skráðu þig þá endilega á Láta vita listann minn á stærðfærði.is
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is