fbpx

Rangt er gott

Ef ég spyr nemendur: “Myndir þú vilja mæta í stærðfræðitíma og læra eitthvað nýtt – eða læra ekkert nýtt?” þá svara flestir nemendur að þeir vilji læra eitthvað nýtt.

En það er samt þannig að nemendum finnst svo rosalega gaman að reikna dæmi og fá alltaf rétt svar. Svo verða flestir svekkir þegar þeir fá rangt svar. 

En ef nemendur reikna fullt af dæmum og fá alltaf rétt svar, þá eru þessir nemendur ekki að læra neitt nýtt. Þeir eru líklega að styrkja tengingar í heilanum – en eru ekki að læra neitt nýtt. Staðreyndin er sú að við lærum svo mikið á að fá rangt svar! Ég legg því mikla áherslu á að nemendur breyti viðhorfi sínu gagnvart röngum svörum og reyni að vera spenntir þegar þeir fá röng svör því þá eru þeir að læra eitthvað nýtt!

Stærðfræði er ólík öðrum fögum. Ef við tökum t.d. sögu sem dæmi. Margir nemendur yrðu ansi þreyttir á að lesa alltaf um sama atburðinn aftur og aftur – án þess að læra neitt nýtt. Það er nánast tímasóun og mjög leiðinlegt. 

En meirihluti nemenda væri sko alveg til í að reikna sambærileg dæmi ansi lengi.

Ein af mínum uppáhalds tilvitnunum er:

if you change the way you look at things
the things you look at change
– Wayne Dyer

Þetta snýst nefnilega allt um viðhorf. Ef þú heldur að þú eigir að vera fljótur að fatta allt í stærðfræði og eigir alltaf að fá rétt svör – þá verður þú auðvitað pirraður ef þú fattar ekki strax og færð röng svör. 

En ef nemandi veit að stærðfræði gengur út á að takast á við spennandi áskoranir og forsenda þess að læra sé að lenda í erfiðleikum – þá hefur þessi nemandi miklu meira úthald þegar kemur að krefjandi verkefnum.

Núna eru flest allir skólar búnir með vorprófin og margir geta ekki beðið eftir að komast í sumarfrí og hvíla sig á skólabókunum.

Þessa dagana er ég á fullu að undirbúa sumarnámskeiðin mín. Það er mikið af spennandi námskeiðum í boði fyrir nemendur á leið í 7., 8., 9. og 10. bekk. Flest öll námskeiðin byrja um miðjan júlí eða í lok júlí. Ég byrjaði með sumarnámskeið sumarið 2013 og var ekki viss um að börn og unglingar væru til í að verja hluta af sumrinu í að reikna stærðfræði, en þessi námskeið slógu strax í gegn og því hef ég haldið þeim áfram síðan (þetta er þá 9. sumarið mitt).

Það er nefnilega þannig að besti tíminn til að styrkja sig í stærðfræði (og lestri) er á sumrin! Ef nemendur eru bara að einbeita sér að einu fagi, þá er alltaf hægt að finna klukkutíma á dag til að leysa spennandi verkefni. Einnig hefur það sýnt sig að foreldrar eru svo ánægðir með að unglingurinn sinn sé ekki bara að sofa út og hanga í símanum allt sumarið – heldur taka frá smá tíma daglega (virka daga) til að undirbúa sig fyrir næsta skólaár, breyta viðhorfi sínu gagnvart stærðfræði og styrkja sjálfstraustið. 

Ertu með einhverjar spurningar? Ef svo er hikaðu ekki við að senda mér tölvupóst á hjalp@staerdfraedi.is

Gyða stærðfræðikennari
https://staerdfraedi.is/


Posted

in

by

Tags: