Ég hef áður talað um þekkingarblekkingu, en í þessum pósti ætla ég að nefna þrjú ólík dæmi um þekkingarblekkingu, svo þú getir varað unglinginn þinn við þeim.
Ef við lesum kafla í bók sem við höfum lesið áður, þá finnst okkur oft eins og við skiljum allt og kunnum allt – af því að það hljómar allt svo kunnuglega. En ef við lokum bókinni og ætlum að segja frá því sem kemur fram í kaflanum, þá er ekki víst að við getum sagt frá efni kaflans.
Annað dæmi um þekkingarblekkingu er þegar við reiknum mjög svipuð dæmi í stærðfræði aftur og aftur. Margar stærðfræðibækur eru byggðar þannig upp að það kemur nýtt efni og svo mörg eins dæmi á eftir, svo aftur nýtt efnið og mörg eins dæmi o.s.frv. Síðan á prófi kemur eitt dæmi úr hverjum flokki og þá vandast málið hjá nemendum. Þeir voru rosalega góðir í hverjum hluta fyrir sig, því dæmin voru nánast þau sömu. Þess vegna fannst þeim þau skilja efnið mjög vel en í raun var lítil hugsun í gangi heldur bara endurtekning.
Þriðja dæmið um þekkingarblekkingu er þegar við kunnum efni mjög vel, en ef við gleymum að rifja það upp þá munum við ekkert af því sem við ætluðum að muna. Dæmi utan skóla er t.d. hvað fékkstu þér að borða strax eftir skóla, klukkan hvað var það nákvæmlega og hvar sastu nákvæmlega? Ef við spyrjum okkur þessarar spurningar sama dag og við borðuðum, þá finnst okkur það svo augljóst og við munum nákvæmlega allt og hvert einasta smáatriði og jafnvel daginn eftir þá munum við allt nákvæmlega líka. En ef við látum líða heila viku án þess að rifja upp, þá er ansi líklegt að við munum ekki nákvæmlega hvað við borðuðum, klukkan hvað og hvar við sátum þennan umrædda dag.
Til að koma í veg fyrir þekkingarblekkingu, þegar við erum að læra, þá er ég hérna nokkur góð ráð:
- Ef við erum að lesa eitthvað efnið, t.d. Í sögu, þá er best að loka bókinni og reyna að endursegja efnið. Það tryggir það að við munum og skiljum það sem við lásum
- Í stærðfræði er gott að reikna ólík dæmi á víxl, ekki of mörg alveg eins dæmi. Þetta má líka yfirfæra á íþróttir. Það er ekki gott að æfa mikið af 1 metra púttum í röð, það er betra að pútta ólíkar lengdir á víxl (skv. Adam Young golfsérfræðingi).
- Upprifjun er lykillinn að því að festa í minni það sem við erum búin að læra. Jafnvel þótt við kunnum eitthvað efni mjög vel og okkur finnst það fáránlega létt – þá gæti þurft örlitla upprifjun til að viðhalda þeirri þekkingu.
Í dag er Páskadagur, dagur málshátta, svo ég ætla að enda á nokkrum góðum sem tengjast námi:
Þolinmæði þrautir vinnur allar
Fáir eru smiðir í fyrsta sinn
Hálfnað verk þá hafið er
Kemst þótt hægt fari
Svo lærir lengi sem lifir