Það er mismunandi eftir grunnskólum en núna eru margir nemendur að fara í próf. Þess vegna langar mig aðeins að tala um prófkvíða. Prófkvíði er eitthvað sem hafði mikil áhrif á mitt nám. Þegar ég var í grunnskóla, þá var ekki til neitt sem hét lesblinda, athyglisbrestur og hvað þá prófkvíði.
Það var ekki fyrr en ég fór í Háskóla Íslands (eftir að hafa klárað Kennaraháskólann) sem ég fékk þá aðstoð sem ég hefði þurft að fá svo miklu fyrr. Námsráðgjöf Háskóla Íslands var með prófkvíðanámskeið sem ég fór á og í kjölfarið fékk ég alltaf að taka prófin í sér stofu og fá lengri próftíma sem hafði mikil áhrif á gengi mitt í prófum.
Síðan þá hefur heilmikið breyst og miklar rannsóknir verið gerðar á virkni heilans og hvað sé í raun og veru að eiga sér stað þegar nemendur upplifa prófkvíða. Í grunninn er það þannig að þegar nemendur með (neikvæðan) prófkvíða sjá próf þá virkjast stöðvar í heilanum sem eru sömu stöðvar og virkjast t.d. við það að sjá eiturslöngu – það er klárlega hættuástand! Svæðið í heilanum sem sér um vinnsluminnið okkar og á að sjá um að leita að upplýsingum sem við þurfum fyrir prófið frýs, því það er hættuástand og það að leita að upplýsingunum er ekki í forgangi.
En það frábæra er, að það er hægt að vinna með þessi viðbrögð með æfingum!
Þegar ég segi orðið prófkvíði, þá er það mjög neikvætt orð, og því væri kannski réttast að breyta orðinu í prófspennu. Smá spenna fyrir próf er nefnilega mjög góð og margir nemendur ná betri einbeitingu í prófi út af þessari spennu og eru að standa sig miklu betur en þeir hefðu gert ef þeir hefðu bara verið að gera eitthvað verkefni.
Það nýjasta sem ég hef lesið mig til um og skiptir máli til að takast á við prófkvíðann eða prófspennuna er að breyta viðhorfi okkar og hvernig við túlkum viðbrögðin sem koma upp þegar við förum í próf.
Ef unglingurinn þinn vill ná góðum árangri í prófi, þá þarf hann að finna fyrir smá stressi eða spennu, því það hjálpar honum að halda einbeitingu og ná betri árangri. En í mörgum tilfellum veldur þetta stress eða þessi spenna því að nemendur með neikvæðan prófkvíða “frjósa” og þeir muna ekki neitt. Það má því flokka prófkvíða í tvennt, jákvæður prófkvíði (sem hjálpar okkur) og neikvæður prófkvíði (sem hamlar okkur).
En munurinn á þessu tvennu felst einungis í því hvernig við túlkum viðbragðið þegar við upplifum þennan kvíða eða spennu.
Tökum dæmi:
Þú kemur inn í próf, færð strax hnút í magann, svitnar í lófum og þú finnur fyrir stressi og kvíða.
Hvernig þú túlkar þessi viðbrögð hefur áhrif á það hvort stressið hjálpi þér eða hamli.
Ef þú finnur þessi viðbrögð og segir “ég finn fyrir spennu, sem er frábært fyrir einbeitinguna mína ég er tilbúinn að taka prófið!” þá munt þú líklega geta notað spennuna til góðs.
En ef þú finnur þessi viðbrögð og segir “ónei, ég finn að ég er ógeðslega kvíðinn og á eftir að lokast í prófinu” þá mun þessi spenna líklega hamla góðu gengi í prófinu.
Heilinn okkar er margslunginn og sniðugur og ef við kunnum vel á hann þá getum við unnið með þetta og breytt þessu.
Það sem er mikilvægt fyrir unglinginn þinn að vita, er að það er gott að upplifa þessar tilfinningar eins og að fá hnút í magann og sveitta lófa, ef hann túlkar viðbrögðin á réttan hátt.
Ef unglingurinn þinn glímir við prófkvíða, þá þarf hann að æfa sig í því að breyta því hvernig hann túlkar þær tilfinningar sem koma upp. Þegar hann finnur fyrir fyrir spennu og kvíða þarf hann að segja við sjálfan þig “ég finn að ég er spenntur, það hjálpar til við einbeitinguna – frábært!”.
Auðvitað er þetta ekki alveg eins auðvelt í framkvæmd og það hljómar en með æfingu verður þetta auðveldara og auðveldara.
Er unglingurinn þinn að glíma við prófkvíða? Ef svo er, fær hann einhverja aðstoð í skólanum? Er hann að upplifa prófkvíða í öllum fögum?
Það væri gaman að heyra frá þér, svo hikaðu ekki við að svara þessum pósti eða senda mér póst á hjalp@staerdfraedi.is
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is