Ég er að fá mikið af fyrirspurnum frá foreldrum þessa dagana varðandi einkunnir í bókstöfum. Þetta kerfi í bókstöfum er mun huglægara en kerfið sem við ólumst upp við, þar sem einkunnir voru gefnar á bilinu 1 til 10. Þá var lífið svo einfalt, ef nemendur fengu einkunn á bilinu 5-10 þá náðu þeir faginu, en 4 og lægra var fall. Það sem var svo þægilegt við þetta kerfi var að nemendur vissu svona yfirleitt hvort þeir væru öryggir með að ná eða ekki.
En ef við skoðum kerfið í bókstöfum eins og það er í dag, þá er það í grófum dráttum þannig að annað hvort kanntu efnið (eða hefur náð hæfni í efninu) eða ekki. Það er mín upplifun að enginn nemandi megi skara fram úr og við séum að setja okkur markmið að útskrifa alla nemendur með B í 10. bekk (sem er reyndar markmið sem er fjarri raunveruleikanum).
Það er því mikilvægt að ná B og nemendur sem fá undir B í kjarna fögunum (íslensku, ensku og stærðfræði), teljast fallnir í þeim fögum skv. skilyrðum við inntöku í framhaldsskólanna.
B (og hærra) þýðir að þú kannt efnið og náðir.
C+ (og lægra) þýðir að þú kannt ekki efnið og féllst.
Nemandi sem “nær” stærðfræði í dag, er í svipaðri stöðu og nemendur í gamla daga sem voru að fá 9-10 í einkunn. Það eru því gerðar miklu meiri kröfur til nemenda í dag en áður.
Þetta getur verið mjög svekkjandi og valdið mikilli togstreitu, því í raun er nánast enginn munur á milli nemenda sem fá C+ og B (enda ansi huglægt hvernig þetta allt er metið), en afleiðingarnar eru miklar. Það sem er kannski verst við þetta kerfi er að þegar nemendur nálgast lok 10. bekkjar þá vita þeir ekki alveg hvar þeir standa – þ.e.a.s. hvort þeir nái B eða ekki.
Nemendur sem ná ekki B, fá t.d. C+ í stærðfræði teljast ekki hafa náð þrepi 1. Þeir geta því ekki sótt um í framhaldsskóla með bekkjarkerfi og þurfa að byrja að taka grunnskólaáfanga í stærðfræði í framhaldsskóla, áður en þeir taka framhaldsskóla stærðfræði (á þrepi 2). Til að flækja þetta enn meira, þá þurfa nemendur sem fá D að taka tvo grunnskólaáfanga í framhaldsskóla áður en þeir geta byrjað í áfanga á framhaldsskólastigi – en þetta á bara við um kjarnafögin þrjú (íslensku, ensku og stærðfræði).
En hvað er hægt að gera til að þetta sé ekki svona huglægt og það sé ekki svona mikil óvissa alveg þangað til lokaeinkunn í 10. bekk er birt?
Það eina sem ég sé í stöðunni er að samræma námsmatið, þannig að allir nemendur séu metnir á sama hátt og öllu þessu huglæga mati haldið í algjöru lágmarki. Það þarf einnig að setja upp skilvirkara bætingakerfi, svo nemendur sem eru alveg á mörkunum að ná, fái tækifæri á að bæta sig fyrir lok 10. bekkjar.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is