fbpx

Mikilvægasta fyrst

Ef þú átt ungling sem er vanur að segjast ætla að gera eitthvað skemmtilegt fyrst og fara svo að læra t.d. „ég ætla að klára að horfa á einn þátt og fara svo að læra“ eða „spila einn leik og læra svo“ – þá er þessi póstur sérstaklega fyrir þig.

Ég líki þessu stundum við að fá greitt fyrirfram. Segjum sem svo að unglingurinn þinn fái tækifæri á að vinna sér inn vasapening með því að ryksuga heimilið. Ef þú myndir fyrst láta hann hafa peninginn og svo ætti hann að ryksuga, þá væri ekkert sérstaklega hvetjandi og skemmtilegt fyrir hann að ryksuga. Þú gætir meira að segja þurft að reka á eftir honum að fara að ryksuga ef þú borgar honum fyrirfram.

En hugarfarið hjá unglingi sem fær greitt eftir vinnuna er allt annað. Hann langar að drífa sig að ryksuga til að fá peninginn og það er hvetjandi fyrir hann að klára það.

Mikilvæga fyrst
Það er betra að ryksuga fyrst og fá svo greitt

Þó svo að ég beri stundum saman ryksuga fyrst, svo vasapening og læra fyrst, leika svo – þá er svo miklu meira letjandi að leika fyrst, læra svo heldur en að fá fyrst vasapening og svo ryksuga.

Peningurinn er bara upphæð sem hann fær einu sinni, hann fær ekki meiri pening fyrir að ryksuga þó svo hann dragi það að ryksuga. En ef unglingurinn þinn sannfærir sig um að horfa fyrst (fá greitt fyrst) og svo að læra, þá fær hann meira „greitt“ eftir því sem hann frestar því að byrja að læra.

Það að horfa, veitir mikla ánægju og mjög erfitt að ætla að horfa bara á einn þátt (þrátt fyrir að það hafi upphaflega verið markmiðið). Það að horfa á þátt er líka oftast letjandi og ekki góður aðdragandi fyrir lærdóm.

En hvað getur þú sem foreldri gert til að hvetja þinn ungling til þess að gera fyrst það sem skiptir máli?

Svarið við þessu er ekki auðvelt, en fyrir rúmlega tuttugu árum horfði ég á myndband með Stephen Covey (höfundur The seven habits of highly successful people) sem hafði mikil áhrif á mig.

Markmiðið með myndbandinu var að sýna fram á að ef við forgangsröðum og gerum fyrst það sem skiptir máli – þá höfum við tíma til að gera ALLT sem okkur langar til, líka þetta skemmtilega sem skiptir kannski ekki miklu máli. En ef við byrjum á því að geta þetta skemmtilega, þá verður aldrei tími fyrir það sem skiptir mestu máli.

Ef unglingurinn þinn lærir fyrst, setur það í forgang, þá mun hann alltaf hafa tíma til að „leika“ með góðri samvisku og ná að njóta þess meira. Lærdómur krefst líka meiri einbeitingu og mikilvægt að gera það sem fyrst og horfa eða spila seinna á kvöldin þegar einbeitingin er hvort eð er ekki mikil.

Hérna er hluti af myndbandinu sem ég sá fyrir löngu síðan, þar sem Stephen Covey er að sýna ungri konu fram á að ef hún tekur fyrst frá tíma fyrir þá hluti sem skipta mestu máli, þá mun hún hafa tíma fyrir hluti sem skipta minna máli:
https://www.youtube.com/watch?v=zV3gMTOEWt8

Það eru til allskonar útgáfur af þessu myndbandi, ég fann ekkert sem unglingar gætu haft gaman af að horfa á, en kannski sleppur þetta myndband, því það er hressara:
https://www.youtube.com/watch?v=3gLGy1WNAxI


Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is 


Posted

in

, ,

by

Tags: