fbpx

Má læra og hlusta á tónlist?

Rannsóknir gefa ekki einfalt já eða nei svar. Það virðist vera í lagi – hjá sumum og stundum. 

Almennt eiga nemendur ekki að geta lært og hlustað á tónlist. En það eru þó sumir nemendur sem hafa vinnsluminni (e. working memory) sem virkar þannig að þeir geta verið með athyglina á fleiri en einu áreiti í einu – svo lengi sem lærdómurinn er ekki mjög krefjandi. 

En stærðfræði er fag sem krefst mikils vinnsluminnis og því ættu nemendur almennt ekki að hlusta á tónlist meðan þeir leysa krefjandi verkefni í stærðfræði. 

Auðvitað eru alltaf undantekningar og ef unglingurinn þinn segist geta hlustað á tónlist og unnið krefjandi stærðfræðiverkefni á sama tíma, þá ætti ekki að gagnrýna það mikið. 

Ég hef leyft nemendum að hlusta á tónlist í tímum hjá mér, vegna þess að það er erfitt að halda góðum vinnufrið þegar ég er að ganga á milli nemenda og aðstoða þá. Mér finnst betra að nemendur hlusti á tónlist sem er stöðug og jöfn, í stað þess að verða fyrir óreglulegum truflunum í umhverfinu.

Hingað til hef ég bara talað um hvort að tónlist geti truflað þann sem er að læra. 

En rannsóknir benda til þess að það hjálpi sumum nemendum að hlusta og læra. T.d. virðast sumir nemendur með ADHD ná betri einbeitingu ef þeir eru með tónlist eða annað áreiti í kringum sig. 

Þetta get ég algjörlega tekið undir. Ég hef verið með nemanda með ADHD sem sagðist læra betur ef hann hefði Friends þátt í bakgrunni sem hann þekkti vel og hafði oft horft á áður. Þessi nemandi vann ótrúlega vel í tímum hjá mér og var að leysa töluvert krefjandi verkefni í stærðfræði – með Friends þáttinn í bakgrunni.

Bara til að undirstrika hvað nemendur eru ólíkir og engin ein kennsluaðferð hentar öllum, þá veit ég líka um nemendur sem eiga erfitt með að hlusta á hljóðbók nema að stilla hraðann á bókinni svo hratt að þeir heyra varla hvað er sagt og þurfa þá að einbeita sér mikið að því að hlusta á hvað er verið að segja. 

Hvernig er staðan hjá þínum unglingi? 
Getur hann lært og hlustað á tónlist 
eða lærir hann kannski bara miklu betur ef hann hlustar á tónlist?

Ertu á póstlistanum mínum þar sem ég sendi út vikulega fróðleiksmola?
Ef ekki, skráðu þig þá endilega hér.


Posted

in

by

Tags: