fbpx

Má hrósa fyrir hvað sem er?

Allir unglingar vilja hrós svo ef við sjáum hegðun sem okkur langar að endurtaki sig þá verðum við að vera útsjónarsöm og grípa tækifærið og hrósa. Því þá eru miklar líkur á að unglingurinn endurtaki hegðunina til að fá aftur hrós.

En við verðum samt að fara mjög varlega í það fyrir hvað við erum nákvæmlega að hrósa.

Eftir að hafa lesið þennan póst þá gætir þú haldið að það mætti nánast ekki hrósa fyrir neitt, en það er þó eitt sem má alltaf hrósa fyrir (meira um það á eftir).

Má hrósa fyrir hvað sem er?
Má hrósa fyrir hvað sem er?

Atriði sem ætti ekki að hrósa fyrir

Að fá góða einkunn í stærðfræðiprófi

Það er ekki gott að hrósa unglingnum sínum fyrir að fá góða einkunn á stærðfræðiprófi. Ástæðurnar eru margar. Í fyrsta lagi þá hefur unglingurinn þinn enga stjórn á því hvernig próf kennarinn semur eða hversu sanngjarn hann er þegar hann fer yfir prófið.

Í öðru lagi þá erum við stimpla unglinginn og gefa í skyn að hann sé einkunnin sem hann er að fá. Næst þegar hann færi svo kannski D, þá tekur hann þá einkunn nærri sér og heldur að hann sé D nemandi. Einkunnir sem nemendur fá á prófum endurspegla ekki endilega vinnuframlag og kunnáttu fyrir prófið.

Ef unglingurinn þinn kemur heim og segir “ég fékk B+ í stærðfræðiprófinu!”, þá má alveg hrósa fyrir það, en nauðsynlegt að tengja þessa góðu einkunn við vinnusemi hans í tímum, heima eða í undirbúningi fyrir prófið. Það væri þá hægt að svara “Frábært! Enda varstu svo vinnusamur þegar þú varst að undirbúa þig fyrir prófið og sýndir mikla þrautseigju þegar það komu dæmi sem voru krefjandi”.

Að klára alla heimavinnu í stærðfræði (í þeim skólum sem enn er heimavinna)

Ef við hrósum unglingnum okkar fyrir að klára heimavinnuna, þá eru meiri líkur á að hann drífi sig að klára en vinni það kannski ekki nógu vel (kannski er meirihlutinn jafnvel vitlaus, en honum er alveg sama því hann náði að klára að fara yfir efni og fær hrós fyrir það).

Ef unglingurinn þinn segir “ég er búinn að læra heima!”, þá getur þú svarað “frábært, hvernig fannst þér ganga? Lærðir þú eitthvað nýtt?”.

Að vera fljótur að fatta nýtt efni eða fljótur að reikna

Það ætti aldrei undir neinum kringumstæðum að hrósa nemendum fyrir að vera fljótir að fatta eitthvað nýtt efni í stærðfræði eða fljótir að reikna ákveðinn dæmafjölda.

Stærðfræði er ekki keppni í hraða heldur rannsóknarvinna. Það lærir enginn stærðfræði á sama hátt og sumir eru fljótari en aðrir að fatta af því að kennslan sem þeir fá hentar þeim vel.

Um leið og við hrósum nemendum fyrir að vera fljótir að fatta eða reikna, þá erum við að gefa þau skilaboð að það sé gott að vera fljótur í stærðfræði.

Að vera með allt rétt

Nemendur læra svo mikið á að fá rangt svar. En oftast finnst þeim það ekkert skemmtilegt og vilja helst reikna og fá bara rétt svör (enda er heilinn hannaður til að forða okkur frá erfiðleikum).

Þegar ég var að kenna í kennslustofu, þá sagði ég stundum við nemendur:
“Hvort myndir þú frekar vilja:
– reikna 30 dæmi í tímanum og fá alltaf rétt svör og læra ekkert nýtt eða
– reikna 2 dæmi, lenda í erfiðleikum, ná loksins tökum á efninu og læra helling nýtt?”

Þegar þessu er stillt upp svona, þá vilja flestir nemendur mæta í stærðfræði og læra helling nýtt.

Þegar unglingurinn þinn er heima að læra fyrir próf, þá ætti markmiðið að vera að læra eitthvað nýtt, styrkja það sem hann kann nú þegar og græða á því að undirbúa sig. En markmið hans þegar hann mætir í prófið gæti samt sem áður verið að fá allt rétt, enda er hann ekki lengur að læra heldur sýna fram á hvað hann kann.

Að reikna rosalega mörg dæmi

Þegar ég var að byrja með námskeiðin mín þar sem nemendur þurfa sjálfir að reikna dæmi á gagnvirkum æfingavef, þá hrósaði ég nemendum fyrir að reikna ákveðinn fjölda dæma.

T.d. Frábært! Ég sé að þú hefur reiknað 75 dæmi á gagnvirka æfingavefnum í gær!

En það leið ekki langur tími þar til ég áttaði mig á því að ég gæti ekki sent daglega tölvupósta á nemendur þar sem ég hrósaði þeim fyrir fjölda dæma. Því það sem gerðist var að nemendur fóru að reikna rosalega mörg dæmi, en vönduðu sig ekki og voru með fullt af villum sem þeir virtust ekki ætla að læra neitt af.

Í dag hrósa ég nemendum eingöngu í lok námskeiðsins fyrir að reikna X mörg dæmi og eftir að ég gerði það þá hafa nemendur lagt mun meiri metnað í að ná góðum tökum á efninu á æfingavefnum – í stað þess að hugsa bara um að reikna fullt af dæmum, til að fá hrós frá mér.

Ef unglingurinn þinn kemur til þín og segir “ég reiknaði 25 dæmi í stærðfræði!!!” þá getur þú sagt “frábært! Hvernig fannst þér dæmin ganga? Fannst þér þú læra eitthvað nýtt á að reikna þessi dæmi?”. Hérna skiptir tóntegundin máli og um að gera að hafa hana mjög glaðlega og spyrja eins og þú sért að hrósa – í jákvæðum tón.

Að vera klár í stærðfræði

Það fæðist enginn klár í stærðfræði. Sumir nemendur hafa ákveðið forskot þegar þeir koma inn í skólann, en það er samt sem áður þannig að þeir nemendur sem fara í gegnum námsefnið og læra það vel, verða “klárir” í stærðfræði.

En ef það má ekki hrósa fyrir að vera klár, hvað má þá hrósa fyrir? Ef þú vilt endilega nota þetta orð “klár” þá getur þú bætt við að hann sé svo klár af því að hann hafi unnið svo vel í námsefninu. Sem sagt vinnusemin og þrautseigjan gerði það að verkum að hann er klár í stærðfræði.

Hvað má eiginlega hrósa fyrir í stærðfræði?

Ég hef stundum skrifað um vaxandi hugarfar (e. Growth mindset) og hamlandi hugarfar (e. Fixed mindset). Þeir póstar hafa því miður ekki verið vinsælustu póstarnir mínir – þrátt fyrir að þetta sé efni sem ég brenn fyrir.

Öll atriðin fyrir ofan eru dæmi sem styrkja hamlandi hugarfar. Við erum svolítið að stimpla unglinginn okkar eins og hans framlag og vinnusemi hafi ekki með árangur hans að gera.

Til að hafa þetta mjög einfalt, þá er eitt sem má alltaf hrósa fyrir og það eitt að hrósa fyrir það mun hafa ótrúlega góð og jákvæð áhrif á unglinginn þinn.

Það er að hrósa fyrir vinnusemi og þrautseigju (sem er dæmi um hegðun sem er tengd vaxandi hugarfari).

Tökum dæmi:
Þú sérð að unglingurinn þinn er að læra stærðfræði og þú sérð á honum að hann er ekki alveg að skilja efnið. Þá er frábært tækifæri að segja strax “frábært að sjá hvað þú ert vinnusamur”, “frábært að sjá hvað þú sýnir mikla þrautseigju, þrautseigja er lykillinn að árangri í stærðfræði.”

Ég hvet þig sem foreldri að nota hvert tækifæri til að hrósa unglingnum fyrir vinnusemi og þrautseigju, ekki bara í stærðfræði heldur öllum fögum, áhugamálum og íþróttum – einnig hrósa fyrir jákvæða hegðun eins og að ganga frá eftir sig í eldhúsinu, ganga frá skónum o.s.frv.

Hvað hefur þú helst verið að hrósa fyrir? Hverju myndi það breyta fyrir þinn ungling, ef hann fengi hrós tvisvar á dag frá þér?

Eins og alltaf, ef þú vilt smella á svara (e. reply) þá finnst mér alltaf gaman að heyra frá þér.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: