fbpx

Læra fyrir stærðfræðipróf

Ég hef stundum heyrt nemendur segja “ha! er hægt að læra fyrir stærðfræðipróf”. Aðrir nemendur telja sig nokkurn veginn vita hvernig á að undirbúa sig fyrir stærðfræðipróf og byrja að reikna gömul dæmi en ná þá bara að reikna lítinn hluta af efninu sem er til prófs.

Annað sem ég heyri mjög oft frá nemendum er að þeim finnst þeir þurfa að muna svo rosalega mikið þegar þeir eru að læra fyrir stærðfræðipróf – svo mikið að efnið verður yfirþyrmandi.

Læra fyrir stærðfræðipróf

En það er hægt að læra fyrir stærðfræðipróf með mjög skilvirkum hætti sem minnkar kvíða fyrir próf. Hérna fyrir neðan er listi af atriðum sem ég mæli með að nemendur fari í gegnum ef þeir vilja læra markvisst fyrir stærðfræðipróf. Þessi listi á við þegar nemendur eru að læra fyrir próf úr efni sem þeir hafa ekki tekið próf úr áður. (Ef nemendur eru að fara í lokapróf úr efni sem þeir hafa áður tekið próf úr, þá eru aðeins aðrar áherslur).

  1. Spurðu kennarann tímanlega (lágmarki viku fyrir prófið) hvaða efni er nákvæmlega til prófs. Fáðu einnig upplýsingar um hvaða dæmi væri best að reikna til að undirbúa sig sem allra best fyrir þetta próf. (Yfirleitt eru það öll dæmin sem búið er að fara yfir í efninu sem er til prófs).
  2. Skrifaðu niður öll dæmin sem gott er að fara yfir fyrir prófið og flokkaðu dæmin. Búðu t.d. til kassa og í hvern kassa skrifar þú niður númer á öllum dæmum sem eru svipuð. Í stærðfræðibókum eru þessi dæmi yfirleitt flokkuð saman og best að nota þá flokkun. Þessi dæmi ættu þá að fara í sama kassa.
  3. Veldu síðan 1-2 dæmi úr hverjum kassa og strikaðu undir þau dæmi. Settu þér síðan markmið að ná að reikna þessi dæmi (þ.e.a.s. 1-2 dæmi úr hverjum kassa). Ef þú hefur lent í einhverjum vandræðum með dæmi, þá máttu endilega gera hring utan um þau og reikna þau líka.
  4. Ef þú nærð að reikna 1-2 dæmi í hverjum kassa og hefur enn tíma til að undirbúa þig, þá velur þú aftur 1-2 dæmi í hverjum kassa.
  5. Á meðan þú ert að reikna þessi dæmi þá skaltu hafa hjá þér eitt autt prentarablað eða autt blað. Á þetta blað skrifar þú allt sem þér finnst þú þurfa að muna þegar þú ert að fara í gegnum þessi dæmi. Ég kalla þetta blað svindlmiðann og hef skrifað um hann áður. Oft upplifum við að við þurfum að muna svo mikið, en um leið og við komum þessum atriðum á eitt blað þá kemur yfirleitt í ljós að þessi atriði eru ekki svo mörg. Kvöldið fyrir próf og áður en þú ferð í prófið þá getur þú farið vel yfir svindlmiðann og gott ráð er að fara í prófið og byrja strax að skrifa á prófið mikilvæg atriði af svindlmiðanum, því þá eru minni líkur á að þú gleymir þeim þegar þú upplifir stress í prófinu.

Hérna er yfirlitsblað sem þú getur prentað út fyrir þinn ungling til að muna betur það sem kom fram hérna að ofan. Þetta efni er tekið úr námskeiði sem ég hef verið að setja saman til að kenna nemendum að læra að læra með HeiViT aðferðinni.

Ástæðan fyrir því að ég bjó til HeiViT aðferðina var sú að mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á viðhorf og virkni heilans þegar ég kenni námstækni. Hei stendur fyrir heilann, Vi stendur fyrir viðhorf og T stendur fyrir tækni. Ef þú hefur áhuga á að fá upplýsingar um þetta námskeið mitt, smelltu þá hér og ég sendi þér póst um leið og ég opna fyrir skráningu á námskeiðið.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

by

Tags: