fbpx

Kemur þetta á prófi?

Ég veit að margir kennarar eru ekki alltof hrifnir af spurningunni „kemur þetta á prófi?“.

En þegar ég heyri nemanda spyrja svona þá hugsa ég, þessi nemandi kann próftækni!
Nemendur sem eru góðir í að taka próf (færni sem hægt er að þjálfa) vita nákvæmlega hvað er til prófs og leggja eingöngu áherslu á að læra það efni þegar þeir eru að læra fyrir próf, enda tíminn oft knappur og ekki hægt að læra allt.

kemur a profi

En auðvitað viljum við að unglingurinn okkar hafi áhuga á að læra eitthvað, þó það sé ekki til prófs. En hvernig er hægt að fá nemendur til að læra eitthvað sem er ekki til prófs? Það er ekkert mál, svo lengi sem unglingurinn hefur áhuga á að læra það.

Þegar nemendur vinna verkefni eingöngu vegna þess að þau eru áhugaverð eða skemmtileg þá eru þeir drifnir áfram af innri áhugahvöt. En þeir nemendur sem eru einungis tilbúnir að vinna eitthvað verkefni ef þeir fá umbun eða einhverja niðurstöðu eru drifnir áfram af ytri áhugahvöt.

Rannsóknir sýna að það er ekkert samband á milli nemanda varðandi innri og ytri hvata. Nemendur með mikinn ytri hvata eru ekkert endilega með mikinn innri hvata og nemendur sem eru með lítinn ytri hvata geta verið með mikinn innri hvata.

Þegar kemur að innri áhugahvöt, þá sýna rannsóknir að nemendur þurfa ekki neina ytri umbun við að gera eitthvað sem þeim finnst skemmtilegt og í þeim tilfellum getur umbun jafnvel dregið úr áhuga nemenda. Umbun þessara nemenda er að fá að leysa verkefnin.

Þegar kemur að ytri áhugahvöt, þá er það ekki ánægjan við að leysa verkefnið sem drífur þá áfram heldur hvað hann fær í staðin fyrir að vinna verkefnið. Fyrir þessa nemendur virka ýmsar keppnir vel, en almennt fyrir bekkjarheildina er ekki gott reyna að hvetja bekkinn áfram með þessum hætti, því yfirleitt eru það sömu nemendurnir sem vinna og þá getur það dregið verulega úr áhuga annarra nemenda. Þó virka yfirleitt einkunnir fyrir verkefni vel á þessa nemendur og er sú umbun sem drífur þeirra vinnu áfram.

Ég sé ákveðið samhengi á milli vaxandi hugarfars (e. growth mindset) og innri áhugahvatar annars vegar og milli hamlandi hugarfars (e. fixed mindset) og ytri áhugahvatar.

Notar unglingurinn þinn innri áhugahvöt eða ytri áhugahvöt þegar kemur að heimalærdómi?
Ég geri ráð fyrri að flestir nemendur séu drifnir áfram af ytri áhugahvöt þegar þeir eru að vinna heimavinnuna því þeir fá flestir einkunn fyrir að sinna heimanáminu. En þessi ytri áhugahvöt getur teygt sig inn á heimilið þegar unglingurinn er farinn að spyrja foreldra sína „hvað fæ ég ef ég læri heima?“

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá https://staerdfraedi.is/


Posted

in

by

Tags: