Hefur þú skoðað reikningsbókina hjá þínum unglingi? Í grunnskóla eru yfirleitt strangar kröfur hvernig reikningsbók nemenda á að vera, sérstaklega á miðsstigi. Þrátt fyrir það hafa nemendur tamið sér ýmsar leiðir til að nýta reikningsbókina í stærðfræði.
Ég kenndi í tæpan áratug stærðfræði á framhaldsskólastigi og var alltaf jafn spennt að sjá hvernig hver nemandi nýtti reikningsbókina sína – enda segir það mér heilmikið til um hvernig stærðfræðingur eða námsmaður viðkomandi nemandi er.
Miðað við reynslu mína, þá flokka ég notkun reikningbókar í stærðfræði í fjóra ólíka flokka, þar sem hver flokkur hefur sína kosti og galla – en þó er ein aðferð sem ég er sérstaklega hrifin af og mæli með, þrátt fyrir að ég viti að það sé ekki almenn skoðun flestra annarra kennara.
Hérna koma flokkanirnar mínar fjórar:
1. Út um allt reikningsbókin
Nemendur í þessum flokki skrifa út um allt – í orðsins fyllstu merkingu. Fyrst þegar ég sá nemenda vinna með þessum hætti þá fékk ég smá sjokk. Nemendur í þessum flokki opna reikningsbókina bara einhversstaðar! og byrja að skrifa. En það sem er kannski áhugavert er að þeir byrja ekki endilega efst á síðunni, heldur bara einhvers staðar t.d. reikna fyrsta dæmið í hægra hornið og svo næsta dæmi á miðri síðunni.
Gallinn við þessa aðferð að nemendur geta ekki nýtt reikningsbókina til að rifja upp fyrir próf, það vantar allt skipulag.
Kosturinn við þessa aðferð er að nemendur byrja strax að vinna, þeir eru ekkert að spá í hvort dæmið sé erfitt, þeir nota bara síðuna til að byrja strax að skrifa útreikninga.
2. Vélmenna reikningsbókin
Nemendur í þessum flokki einbeita sér allt of mikið af uppsetningu og útliti. Ef nemendur skrifa ekki nógu “fallegt” x, þá stroka þeir út og skrifa aftur x. Reikningsbækur hjá þessum nemendum eru “fallegar”, en mjög ópersónulegar og hver sem er gæti átt þessa reikningsbók og hægt væri að fjölfalda hana og selja sem svarbók.
Gallinn við þessa aðferð er að nemendur eru ekki að nota reikningsbókina sem vinnubók. Þegar nemendur eru svona uppteknir að allt líti vel út, þá eru þeir ekki í flæði við að reikna og leyfa heilanum að koma með endalaust af hugmyndum. Þessi aðferð getur því verið mjög hamlandi þegar kemur að því að leysa krefjandi verkefni.
Þessi reikningsbók er heldur ekki góð þegar kemur að upprifjun fyrir próf, því ekkert gefur til kynna ef einhver dæmi hafa verið erfið – allir útreikningar líta eins út og engar vísbendingar um að einhver dæmi hafi verið erfiðari en önnur.
Kostir við þessa aðferð er að yfirleitt eru kennarar mjög hrifnir af þessari aðferð. Nemendur sem eru með svona reikningsbækur fá yfirleitt mikið hrós fyrir og halda því áfram af fullum kraft að nýta reikningsbókina með þessum hætti.
3. Skrifa fram í tímann reikningsbókin
Mörgum nemendum finnst gott að skrifa upp fullt af dæmu fram í tímann. Yfirleitt vanda þeir sig við að skrifa upp dæmin (því þeir eru að fresta því að byrja að reikna) og taka sér góðan tíma að skrifa þau upp og finnst þeir vera að gera eitthvað gagn.
Gallinn við þessa aðferð er sú að nemendur eru, eins og ég sagði, að finna ástæðu til þess að fresta að byrja að reikna. Þeir vita einnig ekki hvað hvert dæmi tekur mikið pláss og skilja því stundum ekki eftir nógu mikið pláss. Þetta eru oftast nemendur sem vilja spjalla og “reikna” og trúa því innst inni að þeir séu að gera eitthvað gagn.
Kosturinn við þessa aðferð er enginn að mínu mati. Nemendur eru ekki einu sinni að byrja að reikna, þegar þeir eru bara að skrifa upp dæmin fram í tímann. Þetta er að mínu mati versta aðferðin…
4. Vinnubókar reikningsbókin
Nemendur sem nota reikningsbókina sem vinnubók eyða stundum ekki tíma í að stroka út, heldur krossa yfir dæmið og byrja upp á nýtt. Þeir skrifa útreikninga vinstra megin a síðuna og nota hægri hliðina til að skrifa “Ath.” og nota örvar til að benda á hvað þeir þurfa að skoða betur. Þeir merkja líka inn á t.d. “Muna!!!” þegar þeir átta sig á að þeir eru oft fljótfærir og vilja læra af því. Stundum koma skemmtilegar teikningar þegar þeir eru að hugsa og leysa verkefnin.
Gallinn við þessa aðferð er að sumum kennurum finnst hún ekki nógu fín og jafnvel sóðaleg.
Kostirnir við þessa aðferð eru óteljandi og þetta er sú reikningsbók sem ég vil að nemendur tileinki sér til að fá sem mest út úr stærðfræðinámi. Nemendur eru að gera vinnubækurnar að sinni vinnubók. Þeir glósa þannig að þeir skilja (enginn annar þarf að skilja glósurnar). Þeir eiga auðvelt með að rifja upp fyrir próf, því þeir skoða bara dæmin sem þeir merktu með “Ath.” og “muna” og reikna þau dæmi aftur. Þeir eru alltaf í rannsóknar-flæði við að leysa dæmin því þeir leggja ekki mikla áherslu á að vinnubókin sé mjög snyrtileg – enda er þetta vinnubók í stærðfræði.
Ég rissaði upp lauslega mynd af því hvernig blaðsíða í hverri reikningsbók fyrir sig lítur út í fjarska – smelltu hér.
Jæja, hvernig skyldi reikningsbókin hjá þínum unglingi vera? Þessi flokkun mín er mjög gróf, svo kannski er unglingurinn þinn mitt á milli flokka.
Veistu hvort að unglingurinn þinn hafi heyrt frá kennaranum sínum að hann þurfi að vanda frágang betur og hafa reikningsbókina snyrtilegri? Ef svo er, var hún “út um allt” eða var hann kannski með æðislega “vinnubók”?
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari