fbpx

Hvað má ekki segja um stærðfræði

Segjum sem svo að þú hafir aldrei verið góð í stærðfræði og unglingurinn þinn er heima að læra, er leiður og talar um að hann geti ekki lært stærðfræði, hún sé svo erfið og hann skilji ekki neitt.

Ég veit að allir foreldrar vilja það besta fyrir barnið sitt eða ungling, svo það er kannski rökrétt að reyna að hughreysta unglinginn með því að segja „ég skil hvernig þér líður, ég var heldur ekki góð í stærðfræði“.

Hvað má ekki segja um stærðfræði?

En rannsóknir sína að þetta svar er stórhættulegt! Það er nefnilega þannig að þegar unglingur upplifir að hann sé ekki góður í stærðfræði og heyrir svona hughreystingu frá foreldri, þá verður það til þess að hann samsamar sig foreldrinu og fer að trúa því að hann sé eins og foreldrið og geti því ekki orðið góður í stærðfræði. Afleiðingarnar (skv. rannsóknum) eru þær að nemendur gefast upp, sætta sig við að geta ekki lært stærðfræði og einkunnir þeirra fara niður á við.

En hvað í ósköpunum eiga foreldrar þá að segja ef þeir eru að horfa upp á niðurbrotinn ungling?

Það mikilvægasta er að deila ekki slæmri reynslu af stærðfræði (nema hún hafi endað með því að þú náðir að snúa blaðinu við).

Ef þú ert nú þegar búin að deila þessari reynslu, þá er tækifæri til að leiðrétt það núna.

Hérna eru þrjú atriði sem þú getur gert, þegar þú ert með barn eða ungling sem upplifir að hann geti ekkert í stærðfræði og hann geti ekki orðið góður í stærðfræði.

Fljótur að fatta er ekki sama og að vera góður í stærðfræði

Láttu hann vita að það að vera fljótur að fatta og leysa verkefni í stærðfræði, hefur ekkert með það að gera hvort maður sé góður í stærðfræði. Margir af okkar bestu stærðfræðisnillingum voru mjög lengi að fatta og héldu margir að þeir væru vitlausir því allir í kring brunuðu áfram í efninu.

Stærðfræðiverkefni eiga að vera áskorun, eiga að vera erfið og við eigum að reyna að læra eitthvað nýtt með hverju einasta verkefni eða dæmi sem við tökumst á við.


Æfa rannsóknar hugarfar

Því fyrr sem unglingurinn þinn tileinkar sér að nota rannsóknar hugarfar í stærðfræði, því betra. Rannsóknar hugarfar er þegar unglingurinn þinn spyr sig gagnlegra spurninga sem koma honum áfram í verkefninu.

T.d. ef unglingurinn þinn er stopp á einhverju dæmi, þá er gott að hann spyrji sjálfan sig gagnlegra spurninga eins og:

  • Skildi ég allt í sýnidæminu á undan?
  • Af hverju gat ég dæmið á undan, hvernig er þetta dæmi ólíkt?
  • Nota orðin „hvernig get ég….“ og passa að nota alls ekki „ég get ekki….“ því þá hættir heilinn að reyna og ekkert gerist.
  • Er þetta orðadæmi? Prófa að teikna mynd, er hann örugglega að skilja spurninguna? Hvað ef dæmið væri einfaldara, gæti hann þá leyst það, ef svo er gefur það hugmyndir til að leysa dæmið?
  • Ef hann er alveg stopp, þá er gott að skrifa spurningu til hliðar (alls ekki stroka út það sem hann er kominn með) og spyrja kennarann í næsta tíma hvað hann sé að gera rangt.

Svo máttu endilega hrósa unglingnum þínum fyrir að sýna vinnusemi og þrautseigju – því þá mun hann sýna þá hegðun aftur til að fá aftur hrós!


Æfa sig að tala upphátt um stærðfræði

Fáðu hann til að segja þér frá um hvað verkefnið er, hvað hann er búinn að gera, skref fyrir skref. Þegar við tölum upphátt um það sem við erum búin að gera, þá verða hugsanir okkar skýrari.

Ég veit ekki hversu oft nemandi hefur beðið um aðstoð í tímum hjá mér og ég bið hann að segja mér hvað hann sé búinn að gera…. og svo segir hann allt í einu „ahh! ég sé hvað ég gerði rangt!!“

Það væri gaman að heyra frá þér, hvað hefur þú verið að segja til að peppa þinn ungling áfram? Hvað finnst þér hafa virkað vel?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is 


Posted

in

by

Tags: