fbpx

Hraðlestur og áhugaleysi

Leshraðamælingar voru mikið í umræðunni í síðustu viku. En eins og ég hef skrifað um áður, þá er ég ekki hlynnt því að það sé verið að mæla leshraða hjá nemendum og hvað þá hjá nemendum sem hafa ekki einu sinni náð valdi á lestrinum.

Hraðlestur og áhugaleysi
Hraðlestur og áhugaleysi

Eitt af hlutverkum grunnskólans er að undirbúa nemendur undir framtíðina og frekara nám. Hluti þess er að sjá til þess að nemendur hafi náð ákveðinni færni í lestri. T.d. er talið æskilegt að nemendur nái að lesa ákveðinn fjölda orða á mínútu til að ná að komast yfir það efni sem bíður nemendum sem fara í framhaldsskóla.

En hvers vegna er þá nemendum ekki kenndur hraðlestur? Til að taka af allan misskilning, þá gengur hraðlestur ekki út að að lesa upphátt og hraðar með sömu tækni og nemendum er kennt að lesa orð fyrir orð. Í hraðlestri er einnig lögð áhersla á lesskilning og snýst því ekki eingöngu um hraða.

Ég líki þessu við fingrasetningu á lyklaborði. Ef nemendur eru með lyklaborð (ekki lyklaborð á síma eða spjaldtölvu) og eiga að skrifa án þess að læra fingrasetningu, þá ná nemendur oft ágætis hraða til að byrja með upp að ákveðnu marki, en geta síðan ekki aukið hraðann.

Til að geta skrifað hraðar og rétt með því að nota lyklaborð, þá þurfa nemendur að læra fingrasetningu. Þetta er vitað og enginn sem efast um þetta.

Það sama á við hraðlestur, nemendur sem læra að lesa orð fyrir orð og lesa hvert einasta orð munu aldrei ná að lesa hraðar. Til að lesa hraðar, þá þurfa nemendur að læra annars konar tækni við að lesa, alveg eins og með fingrasetninguna. Heilinn okkar er svo fullkominn að hann ræður alveg við að lesa heilu bækurnar án þess að þurfa að lesa hvert einasta orð.

Lestur og áhugaleysi

Að mínu mati þá er eitt stærsta vandamál sem við foreldrar glímum við í dag hjá unglingunum okkar, áhugaleysi og skortur á úthaldi.

Þegar ég var að kenna í kringum 2007, þá elskuðu unglingarnir að fá að horfa á mynd í tíma og nutu sín í botn. Í dag er mjög erfitt að sýna eina mynd sem er 90 mínútur. Nemendur hafa ekki sama úthald og áður til að fylgjast með.

Rannsóknir sýna að það eitt að hafa snjallsíma nálægt okkur, þrátt fyrir að slökkt sé á símanum, minnkar athygli og einbeitingu – sem gæti verið hluti af skýringunni.

Einnig sýndi stór og viðamikil rannsókn sem gerð var á 2600 unglingum til tveggja ára, fram á að það væru tvöfalt meiri líkur á því að unglingar þrói með sér einkenni ADHD ef þeir nota snjallsíma mikið í samanburði við unglinga sem nota þá lítið.

En hvað getum við gert varðandi þessa þróun? Hvernig getum við kennt unglingunum okkar að lesa án þess að þeim leiðist eða þeir missi áhugann?

Það sem er mikilvægt að allir viti, er að nám og kennsla sem er sérstaklega hönnuð fyrir nemendur með ADHD nýtist öllum og er betri fyrir alla. Þess vegna mætti endurskoða alla kennslu og sjá hvað við getum gert öðruvísi og betur.

Hraðlestur og ADHD

Hvernig getum við hjálpað unglingunum okkar, þegar kemur að lestri, með aðferð sem nýtist nemendum sérstaklega vel sem eru með ADHD og hentar líka öllum hinum nemendunum?

Ég hef áður skrifað um það að nemandi hjá mér gat ekki lesið, en gat hlustað á hljóðbók á tvöföldum hraða (1.75 – 2, eftir efni). Það var einungis vegna þess að ef hann las, þá var athyglin strax farin eitthvað annað. En ef hann hlustaði á hljóðbók á tvöföldum hraða, þá þurfti hann að einbeita sér svo mikið að því að heyra hvað væri sagt, að hann gat ekki annað en einbeitt sér 100% að því sem hann var að hlusta á.

En þá fór ég að velta því fyrir mér, hvort að það væri ekki sniðugt að kenna þeim unglingum, sem hafa náð tökum á lestri, að lesa hraðar til að halda betur einbeitingu og áhuga.

Eftir smá rannsóknarvinnu mín megin, þá kemur í ljós að það hentar nemendum með ADHD (og lesblindu) sérstaklega vel að læra hraðlestur og ef það nýtist þeim vel, þá nýtist það öllum vel.

En hvers vegna skyldi hraðlestur henta nemendum með ADHD?

Þegar kemur að venjulegum lestri, þar sem við lesum orð fyrir orð, þá notum við vinstra heilahvelið, en það er einmitt oft veikleiki þeirra sem eru með ADHD. En það vill svo til að tæknin sem notuð er við hraðlestur er unnin í hægra heilahveli.

Hverju myndi það breyta fyrir unglinga sem hafa lítið úthald, að læra ákveðna hraðlestrartækni þar sem þeir geta margfaldað lestrarhraðann sinn án þess að fórna lesskilningnum?

Sjálf var ég ekki greind með lesblindu, en veit að ég á við einhverja lestrarörðugleika að etja. En eftir að hafa farið á hraðlestrarnámskeið hjá Hraðlestrarskólanum, þá fann ég að ég gat brunað áfram í texta sem ég gat ekki áður.

Ef þú átt barn eða ungling sem á í erfiðleikum með lestur eða þig grunar að hann sé með ADHD eða áunnið ADHD*, þá gæti nýst honum mjög vel og jafnvel algjörlega veitt honum nýja sýn á lestur að fara á hraðlestrarnámskeið.

Núna væri gaman að heyra frá þér! Hefur unglingurinn þinn farið á hraðlestrarnámskeið hjá viðurkenndum aðila? Ef svo er, hverju breytti það fyrir þinn ungling?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is

*þegar ég nota orðin áunnið ADHD, þá er ég ekki að segja að það séu nemendur sem fá ADHD (t.d. með aukinni símanotkun), heldur nemendur sem hafa minna úthald og einkenni sem svipar til einkenna hjá þeim sem hafa ADHD – en eru ekki með ADHD.


Posted

in

,

by

Tags: