fbpx

Einkunn er ekki endanleg fyrr en við skólalok

Ég hef mjög sterkar skoðanir á lokaeinkunnum nemenda við útskrift í 10. bekk og finnst ég knúin til að skrifa aðeins um það í dag.

Ég hef áður skrifað póstlistapóst um ósamræmi í einkunnagjöf milli skóla (sumir eru með tölur sem þeir varpa í bókstafi, sumir skólar gefa aldrei A o.s.frv.). Það er því alveg ljóst að tækifæri nemenda til að sækja um í framhaldsskóla eru ekki jöfn.

Í dag verð ég að minnast á annað sem ekki margir foreldrar og nemendur vita af sem tengist einkunnagjöf við lok 10. bekkjar.

Vissir þú að nemendur eiga að fá tækifæri að bæta sig í þeirri hæfni sem er tiltekin í Aðalnámskrá grunnskólanna alveg fram í lok 10. bekkjar?

Það þýðir að ef stærðfræðikennari leggur fyrir verkefni í janúar til að meta hæfni nemandans (úr Aðalnámsskránni) t.d. til þess að “geta skipulagt og framkvæmt einfaldar tölfræðikannanir og dregið ályktanir af þeim” og nemandinn fær hæfnieinkunnina C, þá á þessi nemandi að eiga kost á að bæta sig í þessari hæfni út skólaárið. Það er þó samt ekki þannig í flestum skólum.

Þrátt fyrir að ég sé hlynntari einkunnagjöf í tölustöfum út frá stigum, þá er hægt að líta á einkunnir í bókstöfum út frá hæfniviðmiðum sem tækifæri nemenda til að bæta sig allt skólaárið. Þannig að próf sem nemendur taka í upphafi skólaárs eða upphafi annar er ekki endanleg einkunn, heldur staða nemandans á þeim tíma með tækifæri til bætingar. Sú hugsun er meira í anda við vaxandi hugarfar og því hljómar sú leið kannski ekki illa, en ég veit ekki um neinn skóla sem er markvisst að vinna í því með hverjum nemanda að hann nái öllum hæfniviðmiðum Aðalnámskrá grunnskólanna.

Þetta er gríðarlega umfangsmikið verkefni og ekki raunhæft að varpa allri ábyrgð yfir á hvern grunnskóla fyrir sig. Til þess að einkunnir í bókstöfum út frá hæfniviðmiðum Aðalnámskrárinnar gangi upp að mínu mati, þá þarf mikið að breytast.

Hérna eru nokkrir punktar sem mér finnst að þurfi að ráðast í til að auðvelda öllum grunnskólum að vinna eftir til að hægt sé að gæta sanngirnis og samræmis í einkunnum við lok 10. bekkjar:

– Það þarf að vera til námsefni sem styður við hæfniviðmiðin til að gera vinnu kennara auðveldari við námsmat og einnig til að nemendur eigi auðveldara með að bæta sig.
– Það þarf að vera alveg augljóst og skýrt þegar lögð eru fyrir verkefni eða próf hvaða hæfniviðmið sé verið að meta.
– Það þarf að vera mjög gagnsætt fyrir nemendur og foreldra hvar nemandinn stendur út frá hverju einasta hæfniviðmiði til að nemandinn hafi tækifæri á að bæta sig.
– Einnig þurfa að vera skýrir ferlar hvenær og með hvaða hætti nemandi getur bætt hæfni sína.

Ég held að það sé kominn tími til að skipta aftur yfir í tölustafi útfrá stigum (eins og við þekkjum vel) og innleiða bókstafi útfrá hæfniviðmiðum þegar búið er að móta samræmda ferla, námsmat og námsefni sem allir skólar geta unnið eftir. Það er eina leiðin til þess að tryggja jafnrétti nemenda til náms í framhaldsskólum.

Ef þú átt ungling í 10. bekk, þá langar mig að heyra frá þér.
Veistu hvaða einkunnir út frá hæfniviðmiðunum þinn unglingur hefur verið að fá í stærðfræði á þessari önn? Vissir þú að hann á að hafa tækifæri á að bæta þá einkunn sem hann er kominn með?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

by

Tags: