Ég keypti ferhyrnd glerbox með plastlokum í Costco fyrir um ári síðan.
Þá gerði ég mér grein fyrir að ég er með svakalega lélega rýmisgreind…
Ég er með glerboxin í sér skúffu í eldhúsinu og plastlokin í annarri skúffu. Fyrst vel ég glerbox og svo fer ég og finn viðeigandi plastlok. Það er næstum skammarlegt fyrir mig að segja frá þessu, en ég á í þvílíkum vandræðum með að velja rétt lok.
Það undarlega við þetta er, að ég er ekkert hikandi þegar ég vel lokið, en alltaf jafn hissa þegar það passar ekki.
En eins og með allt, þá er hægt að æfa sig í rýmisgreind og ég hef markvisst verið að gera það með þessi lok og orðin mun betri.
Í Aðalnámskrá grunnskólanna er gert ráð fyrir að eftir 4. bekk geti nemendur “áætlað og mælt ólíka mælieiginleika, s.s. lengd, flöt, rými, þyngd, tíma og hitastig með óstöðluðum og stöðluðum mælitækjum og notað viðeigandi mælikvarða”.
Að áætla vegalengdir er stærðfræði og ótrúlega mörg tækifæri fyrir okkur foreldra að æfa börnin okkar í að áætla og hafa tilfinningu fyrir lengd og þyngd.
Það er t.d. hægt að láta þau giska á hvað sjónvarpið, skápurinn og sófinn er langur. Láta þau skrifa svörin niður. Síðan láta þau mæla sjálf með málbandi hversu langir þessir hlutir voru.
Einnig er hægt að gera sambærilegt með t.d. mat í ísskápnum. Láta þau giska á hvað hluturinn er þungur, skrá það hjá sér og vigta svo hlutina eftir á.
Þrátt fyrir að þetta sé kannski fyrst og fremst verkefni fyrir yngri krakka, þá getur þetta verið skemmtilegur fjölskylduleikur því það er ekkert sjálfgefið að fullorðnir séu betri í þessum leik!
Flestir skólar eru búnir með vorprófin eða klára þau á næstu dögum og því langar mig að spyrja þig: Hverjar eru helstu áskoranir hjáþínu barni eða þínum unglingi í stærðfræði fyrir og/eða eftir þessi lokapróf? Er það ólíkt eftir fögum?
Það væri virkilega gaman að heyra frá þér, svo hikaðu ekki við að svara spurningunni með því að svara þessum pósti eða senda póst á hjalp@staerdfraedi.is
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
https://staerdfraedi.is/