Gulla og Jóna, 4 ára, voru búnar að suða í pabba sínum að fá að leika sér með plastskeiðar, -spaða og önnur áhöld sem voru í eldhúsinu. Það endaði með því að hann rétti Gullu öll 5 áhöldin. Þá kom Jóna aðvífandi og tók eitt áhald af Gullu.
Gulla fríkaði út, hljóp á eftir Jónu öskrandi – hún þurfti nauðsynlega að fá fimmta áhaldið.
Þetta er mjög frjálslega þýtt úr bókinni The Gap and the Gain eftir Dan Sullivan.
The Gap, eða gjáin, er þegar við horfum hvar við erum og hvert við verðum að komast,
en the Gain, eða ávinningurinn, er þegar við horfum á hvar við byrjuðum og hvert við erum komin í dag.
Ef við erum neikvæð eða okkur líður illa þá erum við oft föst í gjánni (e. gap), en við það eitt að hugsa um ávinninginn (e. gain) í nákvæmlega sömu aðstæðum getur látið okkur líða miklu betur.
Gulla átti ekkert áhald og var búin að suða lengi um að fá áhald. Pabbi hennar lætur hana hafa öll fimm áhöldin og hún tryllist við að eitt stykki sé tekið af henni, þrátt fyrir að hún sé með fjögur stykki eftir.
Gulla er föst í gjánni. Hún átti ekkert áhald fyrir, af hverju er hún ekki sátt með fjögur stykki? Það er af því að hún er krakki og þessi hugsun er mjög eðlileg. En þegar við eldumst þá er gott að skoða viðhorf okkar, því það hefur svo mikil áhrif á líðan.
Ef unglingurinn þinn fer í próf og fær 8 stig af 10 mögulegum. Þá getur hann einblínt á þessi tvö röngu svör (verið í gjánni) eða verið ánægður með þessi átta réttu svör og hugsað um allt sem hann gerði rétt.
Eftir að ég byrjaði að lesa þessa bók hef ég sjálf oft dottið í gjánna og þegar ég átta mig á því þá fer ég í ávinninginn og það er ótrúlegt hvað það getur breytt líðan á stuttum tíma.
Þessar pælingar minna mig á uppáhaldstilvitnunina mína sem kemur frá Wayne Dyer og hljóðar svona:
“If you change the way you look at things
the things you look at change”
Hvað er það sem unglingurinn þinn kvartar helst undan? Getur hann verið í gjánni og er ekki að gera sér grein fyrir ávinninginum? Það væri gaman að heyra frá þér 🙂
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is