Á föstudaginn voru úrslit í Gettu betur.
Mér finnst rosalega gaman að horfa á þessa spurningaþætti og hef verið að velta fyrir mér nálgun keppenda og hvernig þeir hugsa.
Þetta er einhvern vegin svona sem ég sé þetta fyrir mér:
Spurning er borin upp. Annað liðið er fyrr til að ýta á bjölluna …en það er ekki endilega af því að liðið veit svarið og yfirleitt er það þannig að þeir vita ekki alveg svarið!
Næstu sekúndur fara síðan í að “brainstorma” með liðsfélögum og svo eru einhverju svarað sem virðist vera gisk út í loftið en svo er það rétt svar.
Þetta er hugarfar sem nemendur geta tileinkað sér í stærðfræði og myndi hjálpa nemendum mjög mikið.
Ferlið væri þá einhvern vegin svona:
Nemandi fær dæmi. Hann veit ekki hvernig á að leysa það EN BYRJAR samt strax á að giska og reyna. Ef svarið er rétt, þá fer hann í næsta dæmi ef svarið er ekki rétt, þá hefst skemmtileg rannsóknarvinna að finna út hvers vegna hann fékk ekki rétt svar.
Nemendur verja allt of miklum tíma í að stara á dæmi sem þeir halda að þeir geti líklega ekki alveg leyst 100% og sleppa því að byrja að reyna við dæmið.
T.d. ef nemendur hjá mér eru búnir að reikna mörg svona dæmi
2(x+3)
en svo kemur allt í einu dæmi sem lítur svona út
2(x+ 1/4)
og þá stoppa flestir nemendur!
Byrjunin á dæminu er eitthvað sem þeir kunna en þeir sjá strax eitthvað brot sem þeir eru ekki alveg viss hvernig þeir eiga að reikna og þá byrja þeir ekki á dæminu.
Ef unglingurinn þinn stoppar á einhverju dæmi í stærðfræði láttu hann þá venja sig á að byrja strax og giska á hvernig hægt sé að reikna dæmið. Reynsla mín er sú að nemendur geta alltaf svo miklu meira en þeir þora bara ekki að byrja því það er eitthvað í dæminu sem er nýtt eða öðruvísi.
Hvert er helsta vandamál þitt þegar kemur að þínum unglingi og stærðfræði?
Láttu mig endilega vita, með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari