Við vitum flest að við þurfum að passa hvað við segjum. Ef ég segi t.d. „ég get þetta“, þá eru miklar líkur á að ég geti það. En ef ég segi „ég get þetta ekki“, þá eru miklar líkur á að ég geti það ekki.
Ég var að vinna með einum sérkennara sem var alltaf mikið að hlusta eftir og passa hvernig nemendur töluðu. Ef það kom eitthvað neikvætt frá þeim, þá sagði hún alltaf „passaðu þig, orð eru göldrótt“ eða eins og við höfum oft heyrt á ensku „be careful what you wish for”.
Í þessum pósti langar mig að segja þér frá setningu sem hefur breytt miklu fyrir mig og mína nemendur. Og ég mæli með að þú reynir að lauma þessu að þínum unglingi við tækifæri.
Þetta er setning sem ég vil að nemendur noti í staðin fyrir að segja „ég get þetta ekki“ eða eitthvað sambærilegt sem lokar strax á möguleikann að nemendur geti náð árangri.
Dæmi: Unglingurinn þinn er að fara í próf og það er mjög stuttur tími til stefnu. Hann segir „ég hef engan tíma til að læra fyrir þetta próf“. Sem leiðir mjög líklega til þess að hann hefur engan tíma til að læra fyrir þetta próf, þar sem hann trúir því innst inni að hann hafi engan tíma og þannig sé það bara.
En það er hægt að breyta mjög miklu með því að breyta hvernig við orðum hlutina. Gullna setningin mín og það sem ég vil endilega að unglingurinn þinn nái að temja sér er að venja sig að segja „hvernig get ég…“..
Þá myndi unglingurinn þinn segja við sjálfan sig „hvernig get ég fundið tíma til að læra fyrir þetta próf“ – ekki sagt í hneykslunartón, heldur eins hann sé að spyrja sjálfan sig þessarar rannsóknarspurningu.
Um leið og við segjum við sjálf okkur „hvernig get ég…“ þá kemur heilinn með allskonar hugmyndir hvernig hann getur lært fyrir prófið, þrátt fyrir mjög stuttan tíma. Kannski þarf hann að sleppa því að horfa á Netflix eða YouTube, sleppa æfingu, vaka lengur, fresta einhverju verkefni eða heimsækja vin sem getur aðstoðað hann.
Meðan ég var að venja mig á að nota „hvernig get ég…“ þá var ég með minnismiða á tölvunni minni sem á stóð „Hvernig get ég…“.
Ertu með einhverjar spurningar? Vantar þig einhver ráð varðandi þinn ungling? Ef svo er, hikaðu ekki við að hafa samband með því að svara þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is