fbpx

Fingrasetning krefst æfingar

Síðast skrifaði ég um skoðun mína á iPad í kennslu. Í kjölfarið fékk ég mestu viðbrögð sem ég hef nokkurn tíma fengið yfir því sem ég hef skrifað. Flestir tölvupóstar voru frá foreldrum úr Kópavogi, en iPad í því sveitafélagi er alls ráðandi. Í stuttu máli sagt eru foreldrar ráðalausir, það er gríðarleg togstreita milli iPadsins, enginn friður til að læra út af alls konar skilaboðum. Ef tímar falla niður, þá hanga nemendur í iPödunum,…

Það kom líka mörgum foreldrum á óvart að barnið sitt eða unglingur ætti að kunna fingrasetninguna og langar mig því að nota tækifærið og ítreka að skv. aðalnámskrá grunnskólanna eiga nemendur við lok 4. bekkjar að geta beitt undirstöðu atriðum í fingrasetningu og við lok 7. bekkjar eiga nemendur að geta notað rétta fingrasetningu.

Hvar sem barnið þitt stendur þegar kemur að fingrasetningunni þá tel ég frábært ef nemendur temji sér að æfa sig annað slagið heima líka. Það eru til frábærar æfingar á netinu sem hægt er að nýta og æfa sig markvisst og reglulega.

Eins og með flest, þá borgar sig að byrja róglega, með æfingar sem eru við hæfni hvers og eins og ég kem hérna að neðan með tillögu að fjórum stigum í því að ná góðum tökum á fingrasetningunni. Ef þú átt ungling í 9. eða 10. bekk þá mæli ég með að markið sé sett á fjórða stigið.

Fyrsta stig: fyrir nemendur sem hafa ekki farið neitt í æfingar tengdum fingrasetningu.

Menntamálastofnun er með frábærar æfingar og gott fyrir nemendur á þessu stigi til að æfa sig með því að fara á Fingrafimi 1

Annað stig: fyrir nemendur eru aðeins byrjaðir að æfa fingrasetningu og vilja halda áfram

Hérna bendi ég aftur á æfingu sem er að finna hjá Menntamálastofnun og er framhald af fyrri æfingu Fingrafimi 2

Þriðja stig: fyrir nemendur hafa náð valdi á fingrasetningu og geta byrjað í erfiðari æfingum

Þegar nemendur eru komnir á þetta stig er gott að fara að æfa sig í erfiðari æfingum. Hérna er slóð á frábæran æfingavefnum 10 fast fingers. Gott er fyrir nemendur að æfa sig á þessu stigi, þar til þeir eru nokkuð vissir um að vera með góð tök á fingrasetningunni.

Fjórða stig: fyrir nemendur sem telja sig vera komin með góð tök á fingrasetningunni

Á þessu stigi er gott að æfa sig með Cherrios-pakka! Það má svo sem vera pappi utan af öðru morgunkorni, svo lengi sem hægt er að setja lyklaborðið og hendurnar inn í pakkann (sjá mynd). Áskorunin er allt önnur þegar þú sérð ekki á lyklaborðið. Þá kemur í ljós hvort að þekkingarblekkingin sé til staðar eða ekki.

Þessi Cherrios-pakka aðferð var notuð í skólanum sem unglingurinn minn var í. Allir áttu að mæta með Cherrios-pakka í skólann og æfa sig reglulega. Einnig var lögð áhersla að þeir æfðu sig heima. Markmiðið í þessum umrædda skóla var að ná að lágmarki 20 orðum á mínútu, helst 40 orðum.

Þegar nemendur eru komir á þetta fjórða stig, þá mæli ég líka með að þeir skrái hjá sér metið yfir fjölda orða á mínútu. Það er gott að vita “sína tölu” og keppa við sjálfan sig. Þá er líka svo hvetjandi að sjá bætingu þegar nemendur ná að æfa sig markvisst og vel.

Það er ótrúlega dýrmætt að fara inn í framhaldsskóla með mjög góð tök á fingrasetningu og því vil ég hvetja þig til að kanna stöðuna á þínu barni eða unglingi. Á hvaða stigi er það/hann skv. stigunum hér að ofan? Er hann tilbúinn að æfa sig reglulega til að ná góðum eða enn betri tökum á fingrasetningunni?

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is


Posted

in

,

by

Tags: