fbpx

Hvað á að gera við fermingarpeningana?

Getur 1 króna orðið að 1 milljón á 20 dögum?
Já, t.d. ef ég tvöfalda alltaf þá upphæð sem ég á, þá verður 1 króna orðin að rúmlega milljón eftir 20 daga (nánar tiltekið 1.048.576). Það hljómar ótrúlegt, en það er samt þannig. Eftir 1 dag, ertu kominn með 2 krónur; eftir 2 daga ertu kominn með 4 krónur; eftir 3 daga 8 krónur o.s.frv. Ef þú efast um þetta, þá getur þú látið unglinginn þinn reikna út hver innistæðan verður eftir 20 daga.

Margt smátt gerir eitt stórt og við vitum að hver króna skiptir máli. T.d. ef það vantar eina krónu upp á að við eigum 100 þúsund, þá eigum við ekki 100 þúsund.

Núna er tími ferminga og mig langar aðeins að tala um sparnað. Það er mismunandi hvernig fermingarbörn ráðstafa þeim peningum sem þau fá í gjafir, en það er frábær kostur að setja þann pening inn á bankareikning – sérstaklega þar sem allir stærstu bankarnir bjóða upp á verðtryggða reikninga sem eru bundnir til 18 ára aldurs ásamt auka peningagjöf.

Þegar ég fermdist þá setti ég fermingarpeningana mína inn á bankabók sem var óverðtryggð (það eina sem var í boði á þeim tíma). Þegar ég tók peninginn út hafði orðið mikil verðbólga og gengisfelling og ég átti einungis pening sem dugði fyrir pylsu og kók. Með verðtryggingunni er sem betur fer hægt að koma í veg fyrir svona peningarýrnun.

Til fróðleiks þá var hæsta verðbólga sem mælst hefur á Íslandi árið 1983, en þá var verðbólgan 85,7%. Í dag telst verðbólga mikil ef hún fer yfir 5%.

Ef unglingurinn þinn hefur einhver tök á að leggja inn pening mánaðarlega, þá mæli ég með því að sú hefð eða vani hefjist sem allra fyrst. Því fyrr sem unglingar átta sig á því að margt smátt gerir eitt stórt (eins og að leggja fyrir mánaðarlega), því betra.

Tökum dæmi:

Fermingarbarn 1: Fær 100.000 í peningum í fermingargjöf og setur inn á bankareikning í 40 mánuði (sirka 3,3 ár).
Það á þá um 107 þúsund í lok þess tímabils*.

Fermingarbarn 2: Fær 100.000 í peningum í fermingargjöf og setur inn á bankareikning í 40 mánuði, en auk þess leggur það 5.000 kr. mánaðarlega inn á þennan sama reikning.
Það á þá um 315 þúsund í lok þessa sama tímabils*.

Núna er mikil óvissa með verðbólgu næstu tvö árin, en það er samt staðreynd að ef unglingar hafa einhver tök á að leggja inn stóran hluta fermingapenings inn á verðtryggðan reikning og svo leggja svo aukalega 5.000 kr. mánaðarlega, þá mun það hafa gríðarleg áhrif á innistæðuna í banka í lok tímabilsins.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is

PS.
* ég notaðist við reiknivélina hjá audur.is
Valdi “Óbundinn reikningur”. Þetta var eina reiknivélin sem ég fann þar sem ég gat leikið mér með að finna út hver innistæðan yrði með mánaðarlegri innborgun. Þessi reikningur er ekki verðtryggður, en gefur samt einhverja hugmynd um hvað hægt er að fá í vexti á bankabók sem er verðtryggð gagnvart verðbólgu.


Posted

in

by

Tags: