Ég var að klára að lesa skemmtilega bók sem heitir Think again eftir Adam Grant.
Í bókinni talar höfundur um Davíð Oddsson og Höllu Tómasardóttur – sem kom skemmtilega á óvart en það sem mér fannst áhugavert er þegar höfundurinn talaði um að við ættum að gera meira af því að endurhugsa og aflæra (e. rethink and unlearn).
Það er svo mikið af upplýsingum út um allt og viðtöl við alls konar fólk sem segir alls konar staðhæfingar – sem við flest gerum bara ráð fyrir að séu sannar. En við ættum í raun að staldra aðeins við og ekki trúa öllu sem við heyrum og lesum.
Til dæmis hef ég oft heyrt að nemendur eiga ekki að breyta svörum sínum á prófi, því fyrsta hugsun sé yfirleitt rétt. En í bókinni kemur fram að þetta sé t.d. ekki rétt. Það er búið að rannsaka að nemendur í háskóla sem fara yfir prófið sitt (e. rethink) og breyta svörum sínum áður en þeir skila inn prófinu fá hærri einkunn en þeir sem láta svarið sem þeim datt fyrst í hug standa.
Þrátt fyrir að þessi bók sé helst skrifuð fyrir stjórnendur þá voru mörg atriði sem ég tengdi við nám og kennslu og hversu mikilvægt það er að við lærum að hugsa og séum í hvetjandi umhverfi sem leyfir okkur að efast og endurhugsa hlutina.
Þessi bók var góð áminning fyrir mig að hvetja nemendur til að vera meira gagnrýnir á stærðfræði. Spyrja meira og efast meira til að fá góð svör frá kennurum og þar með dýpka skilning sinn á stærðfræði.
Ertu með einhverjar spurningar? Ef svo er, ekki hika við eina sekúndu að senda mér póst – með því að svar a þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari