Það er gott að fá villur, því það er tækifæri á að læra eitthvað nýtt. Þetta er viðhorf sem hvetur nemendur til þess að prófa og vera ekki hræddir um að gera mistök heldur fagna mistökunum og reyna að læra af þeim!
Ég hef séð það aftur og aftur í kennslu hjá mér, að þeir nemendur sem lenda í erfiðleikum með dæmi og gefast ekki upp, læra miklu meira um efnið en þeir sem lenda ekki í neinum erfiðleikum.
Ég held að flestir kennarar séu alveg sammála um að nemendur græða á að gera mistök og ef við ætlum að ná virkilega góðum tökum á ákveðnu efni eða íþróttagrein, þá megum við ekki vera hrædd að gera mistök.
En samt er svo margt í skólakerfinu sem ýtir ALLS ekki undir það að hvetja nemendur til að prófa sig áfram og vera ekki hræddir að gera mistök. Til dæmis hvernig unnið er með próf sem lögð eru fyrir nemendur.
Ég ætla að taka dæmi um próf sem lögð eru fyrir nemendur, þar sem úrvinnsla prófanna er mismunandi eftir kennurum.
Dæmi 1:
Kennari leggur fyrir stærðfræðipróf, þeir sem fá ekki rétt svar fá rangt fyrir dæmið.
Dæmi 2:
Kennari leggur fyrir stærðfræðipróf. Hann rýnir í alla útreikninga og reynir að sjá hvað nemandinn var að hugsa og gefur stig fyrir útreikninga sem eru góðir, þrátt fyrir að endanlegt svar sé ekki endilega rétt.
Dæmi 3:
Kennari leggur fyrir stærðfræðipróf. Hann merkir við dæmi sem nemendur þurfa að skoða betur með ábendingum sem leiða nemandann áfram. T.d. “allt að framan er rétt, en þetta hérna (ör sem vísar á staðinn) þarftu að skoða betur. Nemendur fá prófin til baka og fá aðra tilraun til að skoða það sem þeir voru ekki að hugsa rétt.
Ef markmið prófa er að nemendur læri af því að taka prófið OG markmið í námi almennt sé að nemendum sé ekki refsað fyrir mistök heldur sé þeim kennt að þeir geti lært heilmikið á þeim og þeir fái meira að segja tækifæri á að læra af mistökum – þá ættu flestir kennarar að gera sitt besta til þess að semja próf og verkefni sem eru sambærileg og Dæmi 3.
Ég veit um bæði grunnskóla og framhaldsskóla sem eru með próf í sumum fögum sem svipar til dæmis 3, sem mér finnst alveg frábært og ég sé og veit að það hefur mjög jákvæð áhrif á nám nemenda.
Núna getum við ekki stjórnað prófunum sem lögð eru fyrir í skólum eða farið fram á að allir kennarar semji próf sem er eins og dæmi 3.
En við sem foreldrar höfum samt meiri völd en við gerum okkur grein fyrir því skv. Aðalnámskrá grunnskólanna eiga nemendur rétt á að fá að bæta sig í hæfniviðmiðum sem þeim gekk ekki nógu vel í. Þetta skiptir kannski mestu máli fyrir nemendur í 10. bekk.
Tökum dæmi: Unglingurinn þinn skilar íslensku ritgerð í janúar sem og hann fær einkunnina C. Þá á unglingurinn þinn að eiga tækifæri á að bæta sig í þeim hæfniviðmiðum sem þessi ritgerð var notuð til að mæla. Sem sagt, hann á að fá tækifæri á að bæta þessa einkunn fyrir lok 10. bekkjar. Sumir unglingar eru bara sáttir við sitt og ekkert mikið að velta sér upp úr einkunnum, en ef þú átt ungling sem er metnaðarfullur og vill bæta sig, þá á það að vera hægt. Sem sagt, einkunn er ekki endanleg fyrr en alveg við lok 10. bekkjar.
Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi þetta, hikaðu ekki við að hafa samband.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari
hjá stærðfræði.is