Það er ákveðin tækni að læra undir próf….
og nemendur þurfa að læra að læra undir próf. En það er samt yfirleitt ekki kennt í skólum.
Ef þig langar til þess að aðstoða þinn ungling að undirbúa sig vel fyrir næsta stærðfræðipróf þá eru hérna nokkrir punktar.
Það fyrsta sem er gott að átta sig á er hversu mikið þetta próf gildir sem hluti af lokaeinkunn. Ef prófin eru sjaldan getur vægi svona hlutaprófa verið mikið jafnvel jafn mikið og lokapróf.
Síðan er nauðsynlegt að fá svör við neðangreindum spurningum hjákennaranum:
1. Hvaða efni er nákvæmlega til prófs (hvaða blaðsíður og kaflar)?
2. Hvaða dæmi mælir kennarinn með að nemendur reikni
til að undirbúa sig vel undir prófið?
3. Hvert er vægi hvers efnis á prófinu? T.d. ef það er verið að prófa úr þremur köflum, er þá vægi hvers kafla jafnt á prófinu?
4. Hversu margar spurningar eru á prófinu?
5. Eru þetta krossaspurningar eða spurningar þar sem skrifa þarf svarið?
6. Eru einhver hjálpargögn leyfð á prófinu? T.d. formúlublað, handskrifað glósublað,…
Það fer síðan alveg eftir stærðfræðibókum hversu auðvelt er að undirbúa sig undir sjálft prófið. T.d. er Almenn stærðfræði með samantekt og sjálfspróf sem eru frábær til að æfa sig á. En bæði Átta-tíu og Skali eru með ólík dæmi
og ekki samantekt og því erfiðara að undirbúa sig undir próf úr þeim bókum.
Svo eru flestir skólar eru með kennsluefni úr fleiri en einni bók og það gerir undirbúninginn stundum flóknari.
Það er því mikilvægt að unglingurinn þinn fái ráð frá kennaranum hvaða dæmi hann á að reikna (nákvæmlega númer dæmanna) til að hann geti undirbúið sig sem allra best undir prófið.
Síðan er gott að byrja á því efni sem unglingurinn þinn kann minnst í og einnig passa sig á að verja mestum tíma í það efni sem hefur mest vægi á prófinu.
Margir unglingar halda að það sé nóg að undirbúa sig kvöldið fyrir próf en það er ekki nóg – nema þeir hafi alltaf lært heima fyrir alla tíma og alltaf skilið öll dæmin sem búið er að fara yfir.
Ég mæli með að unglingurinn þinn taki frá góðan tíma helgina fyrir prófið og nýti þann tíma vel til að reikna og læra sem mest nýtt eða styrkja það sem hann kann.
Síðan má nýta kvöldið fyrir prófið til að fara betur yfir efni sem honum fannst erfiðast eða þarf að æfa sig betur í.
Ef þú vilt styðja við unglinginn þinn fyrir næsta stærðfræðipróf spurðu hann þá hvenær næsta stærðfræðipróf sé og fáðu upplýsingar frá kennaranum sem hann þarf til að geta undirbúið sig undir prófið.
Ég er með áskriftarleið sem heitir Stærðfræðiklúbburinn sem er fyrir nemendur í 10. bekk sem er hugsaður sem stuðningur við stærðfræðinámið þegar heim er komið – og einnig til að aðstoða nemendur við að skipuleggja sig og undirbúa sig undir próf.
Ertu með einhverjar spurningar?
Ef svo er, ekki hika við að smella á “svara” við þessum pósti.
Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari