fbpx

Stjörnumerking – veistu hvað það er?

“sonur minn er núna í 10. bekk og stærðfræðikennarinn hans í skólanum var að hafa samband og láta mig vita að hann þyrfti að fara í aðlagað námsefni og mun því útskrifast með stjörnumerkta einkunn í stærðfræði”.

Fyrir þá sem ekki þekkja til þá eru stjörnumerktar einkunnir í lok 10. bekkjar í grunnskóla metnar sem D í framhaldsskóla, jafnvel þó að stjörnumerkta einkunnin sé A. Það er vegna þess að stjörnumerking þýðir að nemandinn tók ekki próf úr sama efni og aðrir nemendur í 10. bekk og því skiptir engu máli hversu góð stjörnumerkta einkunnin er – það er ekki hægt að meta hana nema sem D í framhaldsskóla. Nemandi sem útskrifast með A* í stærðfræði í 10. bekk þarf að taka tvo grunnskólaáfanga í stærðfræði áður en hann getur byrjað að læra stærðfræði á framhaldsskólastigi. Ennfremur á þessi nemandi á enga möguleika á að sækja um skóla með bekkjarkerfi.

Ég hef oft fengið til mín nemendur með stjörnumerktar einkunnir sem geta alveg lært en þurfa bara aðeins meiri stuðning, aðstoð og aðhald til að ná markmiðum sínum. Ég þori því alveg að fullyrða að það eru alltof margir nemendur látnir “samþykkja” að vera í aðlöguðu námsefni, því það er ekki unnið að því að kanna nægjanlega vel hvort hægt sé að finna einhverjar aðrar leiðir.

Oft eru þetta nemendur með greiningar og þær notaðar sem afsökun á því að nemandinn þurfi að fara í aðlagað efni. En fyrir mér er það einmitt áskorun fyrir skólann og foreldrana hvernig sé hægt að styðja við nemandann þar sem hann sé með þessar greiningar og þurfi því að hafa meira fyrir náminu en aðrir.

Ég veit ekki um nein dæmi þess að nemandi hafi byrjað með stjörnumerktar einkunnir en síðan seinna farið yfir í að taka próf og vera í sama efni og bekkjarfélagarnir. Þetta er því ákveðin gildra þegar nemendur byrja í stjörnumerktum einkunnum. Enda segir það sig sjálft að nemendur sem fara í aðlagað efni dragast yfirleitt aftur úr og bilið milli þeirra og þess sem ætlast er til af þeim eykst.

Nemendur með athyglisbrest, lesblindu, stærðfræðiblindu, greindarskerðingu,… geta alveg lært stærðfræði og tekið sömu próf og aðrir – bara svo það sé á hreinu.

Það er ekki algengt að nemendur séu allt í einu látnir fara í aðlagað námsefni í 10. bekk – en það eru þó mörg dæmi um það. Mér finnst það undarlegt og skrítið. Ef nemendur þurftu ekki aðlagað efni í 9. bekk, þá ættu þeir ekki að þurfa aðlagað efni í 10. bekk. Á þessu stigi þarf að halda fund með foreldrum og ræða hvaða leiðir er hægt að fara til að styðja betur við nemandann svo hann geti verið samferða bekkjarfélögum sínum í náminu.

En hvenær er í lagi að nemendur fari í aðlagað námsefni?
Mig langar að svara “næstum aldrei”, en auðvitað eru alltaf undantekningar og ef nemandinn vill t.d. alls ekki læra og hefur engan áhuga á að bæta sig í stærðfræði – þá getur þetta verið eina leiðin.

En það sem er hættulegt í þessu er, að nemendur trúa því oft að þeir geti ekki lært stærðfræði og hafa þess vegna engan áhuga á að læra hana eða leggja á sig.

En ef skólinn metur sem svo að það sé hagur barnsins/unglingsins að fara í aðlagað efni, þá finnst mér nauðsynlegt að funda með foreldrum og gera þeim grein fyrir því hvað það þýðir að vera í aðlöguðu námsefni (fá stjörnumerktar einkunnir). Svo þarf að leita leiða til að athuga hvort að hægt sé að fá auka aðstoð bæði innan og utan skólans. Þegar nemendur eru mjög ungir, á yngsta stigi og miðstigi, þá finnst mér þetta vera fyrst og fremst í höndum foreldra og skólans. En þegar nemendur eru komnir á unglingastig, þá skiptir meira máli að nemandanum langi að standa sig í stærðfræði.

Það er erfitt að læra stærðfræði á stuttum tíma eða gera miklar breytingar á stuttum tíma. En ef það tekst að breyta viðhorfi unglings (sem getur gerst á nokkrum mínútum) þá er hægt að gera ótrúlega miklar breytingar í stærðfræðinámi á stuttum tíma.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

by

Tags: