fbpx

Hvað er unglingurinn þinn að hugsa þegar hann les?

Margir kannast við tilfinninguna að fresta og fresta þar til það er nánast of seint og þá fer allt á fullt og þá náum við oft að afkasta mikilli vinnu á stuttum tíma.

En ef við höfum nægan tíma til að vinna eitthvað verkefni, þá verjum við oft meiri tíma í það og nýtum tímann kannski ekki alveg nógu vel.

En hvernig skyldi einbeitingin vera hjá nemanda sem sest niður til að lesa kafla í sögu og hann veit að hann getur lesið þennan kafla nokkrum sinnum fyrir prófið sem er eftir tvo mánuði? Þá er ansi líklegt að einbeitingin við lesturinn verði ekki mikil.

Það má reyndar ræða það hvort að margir nemendur myndu yfir höfuð nenna að lesa eitthvað efni svona langt fram í tímann, því þeir þurfa hvort eð er að lesa efnið aftur fyrir próf.

En er hægt að breyta þessu?
Já, ég vil meina að þetta sé spurning um viðhorf þegar nemendur setjast niður til að lesa.

En ef nemandi sest niður til að lesa kafla í sögu (þrátt fyrir að það sé mjög langt í prófið) og hann segir við sig að hann fái bara eitt tækifæri á að lesa þennan kafla, þá mun einbeiting hans verða miklu meiri. Hann mun veita hverju einasta atriði meiri gaum og gera hvað hann getur til að muna það sem hann les.

En til þess að þessar upplýsingar festist í minni, þá þarf nemandinn að nota einhverja tækni til að koma í veg fyrir að þessar upplýsingar gleymist og verði enn til staðar fyrir prófið.

Eins og ég hef nefnt áður, þá er aðferðin að “endurheimta” ein af skilvirkustu aðferðunum sem við getum notað til að læra efni eins og sögu. Hún byggir á því að við lesum ákveðna blaðsíðu eða kafla, en lokum svo bókinni og gerum okkar besta að draga fram aðalatriðin í því sem við vorum að lesa (án þess að kíkja í bókina). Ef það er langt í prófið, þá er gott að skrifa þessi aðalatriði niður og rifja þau svo upp þegar nær dregur prófinu.

Þetta er alls ekki sama aðferð og að hafa bókina opna og skrifa stuttan útdrátt úr efninu! Það er ekki skilvirk og góð aðferð, þrátt fyrir að hún sé líklega örlítið betri en aðferðin við að nota yfirstrikunarpenna.

Aðferðin að endurheimta felur í sér að við erum að búa til sterkar tengingar við langtíma minnið, sem er lykillinn að því að við geymum en ekki gleymum því sem við erum að lesa. Ástæðan fyrir því að hún virkar svona vel, er af því að það er ekki auðvelt að rifja svona upp, heilinn okkar þarf að hafa mikið fyrir þessu. Það er nefnilega oft þannig að því erfiðara sem það er fyrir okkur að læra eitthvað, því betur munum við það.

Hvernig er unglingurinn þinn að læra fyrir lestrarfög eins og sögu?
Nær hann að fara yfir allt efnið fyrir próf?
Ef þú nennir að deila svarinu með mér, sendu mér þá endilega póst með því að svara þessum pósti.

Bestu kveðjur,
Gyða stærðfræðikennari


Posted

in

by

Tags: