Hvenær er besti tíminn?

Nú þegar tæplega tveir mánuðir eru eftir af skólaárinu, þá eru eflaust einhverjir sem hugsa að það sé of stuttur tími til að ná tökum á stærðfræði. Það gæti vissulega verið rétt ef nemandinn stendur mjög höllum fæti í stærðfræði og eina markmiðið er að standa sig vel í næsta prófi eftir viku.

Hvenær er besti tíminn

En hvað þýðir eiginlega að ná góðum tökum á stærðfræði? Það má segja að það séu tvær leiðir til að líta á það, en nálgunin og niðurstaðan er mjög ólík.

Mér finnst oft gott að hugsa þetta í tengslum við eitthvað annað, eins og t.d. heilsuna. Fyrir einhvern sem er í ofþyngd og þarf að létta sig samkvæmt læknisráði, hvenær er besti tíminn fyrir hann til að ná góðum tökum á heilsunni? Einn vinkillinn er að miða við ákveðinn atburð, t.d. ná að léttast um 10 kíló fyrir ákveðið brúðkaup eða stórafmæli í sumar. Á meðan annar vinkill væri að líta á þetta sem lífstílsbreytingu sem miðast ekki við neinn endapunkt.

Ef viðhorfið er að léttast fyrir ákveðinn atburð, þá vill einstaklingurinn líklega fá skjóta lausn og er tilbúinn að leggja mikið á sig í skamman tíma. Hann gæti þá lagt áherslu á að hamast í ræktinni og fara út í miklar öfgar í mataræðinu. Markmiðið er þá ekki endilega að breyta um lífstíl, heldur bara ná að léttast um 10 kíló fyrir ákveðna dagsetningu. Þessi aðferð getur virkað vel, en til lengri tíma litið mun þetta átak líklega ekki leiða til bættrar heilsu til framtíðar.

Aftur á móti ef einstaklingur, sem þarf samkvæmt læknisráði að létta sig, ákveður að byrja lífstílsbreytingu strax í dag og nær tökum á því í litlum skrefum, þá mun það skila sér í bættri heilsu til framtíðar. Kannski nær viðkomandi ekki að losa sig við nema 2 kíló fyrir brúðkaupið í sumar, en hann er kominn með rétta viðhorfið og veit að eftir því sem tíminn líður mun hann bæta heilsuna jafnt og þétt.

Ef við skoðum þetta í tengslum við stærðfræði, þ.e.a.s. nemandi stendur höllum fæti í stærðfræði og veltir fyrir sér hvenær er besti tíminn til að ná tökum á stærðfræði.

Fyrir mér er svarið einfalt. Besti tíminn er í dag, sama hvort að það sé sumarfrí eða vika í lokapróf. Því fyrir mér þá er það að ná tökum á stærðfræði eins og lífstílsbreyting. Þetta snýst ekki endilega um það að læra eitthvað ákveðið efni sem verður síðan prófað úr eftir viku – heldur skiptir mestu máli að byggja upp mjög góðan grunn, kenna nemendum að nálgast stærðfræði með réttu viðhorfi og þjálfa vinnusemina. Þegar nemendur ná tökum á því, þá mun nemendum ganga vel í stærðfræði í framtíðinni – kannski nær nemandinn ekki að redda sér strax fyrir næsta próf, en það ætti heldur ekki endilega að vera markmiðið.

Ef þú átt ungling sem stendur höllum fæti í stærðfræði, þá er aldrei of seint eða einhver tími betri en annar. Ef unglingnum langar til að ná tökum á stærðfræði og er tilbúinn að leggja á sig vinnuna til þess – þá er rétti tíminn akkúrat í dag. Eitt gott ráð sem hægt er að byrja á strax í dag, er að æfa þrautseigjuna. Ein leið til þess er að stilla eggjaklukku/eldhúsklukku á 15 mínútur (og ekki gleyma að setja símann í eldhússkúffuna á hljóðlausa stillingu) og byrja að vinna í krefjandi stærðfræðiverkefni. Ef það gengur vel, að gefast ekki upp í 15 mínútur, þá er hægt að auka þennan tíma jafnt og þétt næstu daga.