Besti framhaldsskólinn?

Ef þú átt ungling í 10. bekk, þá er hann þessa dagana líklega að velta fyrir sér hvaða framhaldsskóla hann eigi að sækja um í. Margir framhaldsskólar á höfuðborgarsvæðinu hafa verið með kynningar á sinni starfsemi og einhverjir skólar verða með kynningar í apríl.

En stóra spurningin er líklega, hvaða framhaldsskóli er bestur fyrir þinn ungling?

Besti framhaldsskólinn

Svarið við þessu er ekki svo einfalt, því ekki er raunhæft að sækja um í alla skóla (þar sem skólarnir taka að mestu leyti inn nemendur eftir einkunnum) og svo eru ýmsir tilfinningalegir þættir sem hafa áhrif á það hvaða skóla unglingurinn þinn vill sækja um í. En ég ætla að skoða þessa tvo þætti nánar.

Hvaða skóla er raunhæft fyrir þinn ungling að sækja um í?

Þegar nemendur í 10. bekk eru að sækja um í framhaldsskóla, þá velja þeir tvo skóla. Annar skólinn er fyrsta val og hinn skólinn annað val. Ef nemandi fær ekki inngöngu í skóla sem skráður var í fyrsta eða annað val, þá er honum úthlutuð skólavist í “einhverjum” skóla. Það skiptir því máli að setja raunhæft val á skólum í þessi tvö sæti.

Til dæmis væri ekki raunhæft fyrir nemanda sem nær ekki B í einkunn í öllum kjarnafögunum, að sækja um skóla með bekkjarkerfi (eins og Versló, MR eða Kvennó). Ennfremur þarf líka að hafa í huga, ef einkunnir eru ekki mjög góðar, að þá er ekki raunhæft að sækja um vinsæla skóla, þrátt fyrir að þeir taki við nemendum sem ná ekki B í kjarna fögunum. Það er vegna þess að þessir skólar velja bestu nemendurna sem sækja um hjá sér. Því þarf oft mjög góðar einkunnir til að eiga greiða inngöngu í vinsælu skólana, þrátt fyrir að þeir séu ekki með bekkjarkerfi.

Það sem gerir þetta svolítið erfitt, er að það breytist frá ári til árs hvaða skólar eru vinsælastir. Þó er gott að skoða hvaða skólar voru vinsælastir fyrir ári síðan, til að átta sig á því.

Ef skoðaðar eru tölur frá því fyrir ári síðan, þá voru t.d. bæði Fjölbrautaskólinn í Garðabæ og Menntaskólinn við Sund “vinsælir” skólar sem fyrsta val, en aðeins brot af þeim nemendum fengu skólavist í þessum tveimur skólum. Ef þú sem foreldri vilt skoða þessar tölur nánar, þá bendi ég þér á að skoða sérstaklega vel glæru númer 5, því þá er auðvelt að sjá hlutfall þeirra sem var hafnað hjá hverjum skóla (sem fyrsta eða annað val). Hér er hægt að sjá tölfræðina frá Menntamálastofnun hér: https://mms.is/innritunartolfraedi-haust-2023

Það ber þó að skoða þetta með smá fyrirvara, því þó svo að ákveðinn skóli hafni engum, þá þýðir það ekki að hver sem er komist inn ef hann sækir um. Ef ég rýni t.d. í glæru 5 (ef þú smellir á vefslóðina hérna fyrir ofan), þá lítur út fyrir að allir sem sóttu um í MR hafi komist þar inn. Það þarf ekki að þýða að það sé auðvelt að komast inn í þann skóla, því líklega hafa einungis mjög námslega sterkir nemendur sótt þar um.

Hvaða tilfinningalegu þættir hafa áhrif á hvaða skóla þinn unglingur vill fara í?

Það er ólíkt eftir hverjum unglingi, hvaða þættir það eru sem skipta mestu máli fyrir hann. Ég hvet alla foreldra til þess að hlusta á sinn ungling en ekki stýra of mikið vali hans á skóla.

Hvaða skóla er raunhæft að setja sem fyrsta og annað val?
Eins og ég kom inn á hérna fyrir ofan, þá þarf að skoða hvaða skóla er raunhæft fyrir þinn ungling að sækja um í. Það er ekki nóg að langa í ákveðna skóla, ef valið er óraunhæft, þá fær unglingurinn þinn úthlutað einhverjum skóla.

Að elta vinina
Margir vilja elta vini sína og velja sama skóla og þeir. Ef þinn unglingur hefur kost á því (einkunnarlega séð), þá getur það verið mjög gott. Það er miklu auðveldara fyrir marga að sinna náminu vel og mæta vel ef þeir eru að fara að hitta vini sína á hverjum degi í skólanum.

Aðgengi að skólanum
Ef unglingurinn þinn á auðvelt með að komast í skólann, þá eru meiri líkur á að hann mæti vel. Margir unglingar fá kannski far í skólann með foreldri, eiga heima í göngufæri frá skólanum eða eru með mjög góðar strætósamgöngur í skólann. Þetta getur skipt máli fyrir suma (að því sögðu, þá þekki ég strák sem bjó á Akranesi og tók strætó alla daga í Versló og fannst ekkert að því!).

Bekkjarkerfi
Það hentar mörgum nemendum að fara í bekkjarkerfi. Ég fór í bekkjarkerfisskóla og það hentaði mér mjög vel. Bekkurinn var sem ein heild og gerði mikið saman. Ef ég hefði farið í skóla með áfangakerfi, þá hefði ég týnst og ekki fundið mig í námi.

Áhugasvið
Hvar liggur áhugi þíns unglings? Námsframboð er mjög mismunandi eftir framhaldsskólum og gott að skoða hvort að skólinn sem þinn unglingur velur sem fyrsta eða annað val sé að kenna það sem hann hefur áhuga á. Nemandi sem hefur t.d. brennandi áhuga á myndlist ætti kannski frekar að velja FB en MR. Nemandi sem stefnir á læknisfræðinám ætti kannski að velja MR.

Sveigjanleiki
Einhverjir nemendur þurfa sveigjanleika og þá er gott að hafa samband við hvern skóla og kanna hvort þeir bjóði upp á þann sveigjanleika sem þeir þurfa. Ef unglingurinn þinn stundar til dæmis keppnisíþróttir og þarf vegna þess að fá frí, þá getur skipt sköpum að hafa valið skóla sem tekur fullt tillit til þess.

Pressa frá foreldrum
Hvað við foreldrar segjum hefur áhrif. Margir unglingar eru að velja skóla af því að foreldrar þeirra voru í þeim skóla eða foreldrar þeirra segja að sé besti skólinn. Ég rakst á mjög áhugaverða BA-ritgerð (haust 2023) frá Ólafi Sveini Jóhannessyni sem ber heitið Vægi mæðra um val á framhaldsskólavist, sem gæti verið skemmtilegt fyrir þig að renna yfir. Hægt er að lesa ritgerðina hér: https://skemman.is/bitstream/1946/46341/1/%C3%93lafur_Sveinn_J%C3%B3hannesson_BA_lokaverk.pdf

Tilfinning
Þú hefur eflaust einhvern tíman verið að leita að húsnæði og þú vissir um leið og þú komst inn í húsnæðið, sem varð fyrir valinu, að þetta væri rétta húsnæðið! Svona tilfinning getur líka komið upp við val á framhaldsskóla. Ég heyrði sögu af einum nemanda sem var harðákveðinn að sækja um í FB, en fór samt í kynningu hjá MR. Um leið og hann steig þar inn, þá breytti hann ákvörðuninni og sótti um í MR, komst inn og var alsæll. Ég segi þessa sönnu sögu, því að FB og MR eru mjög ólíkir skólar og mikilvægt að hafa opinn hug þegar kemur að því að velja skóla – og heimsækja sem flesta skóla, þó svo að það sé kannski ekki endilega sá skóli sem þú hafðir hugsað þér að sækja um í.

Hvað sem þinn unglingur endar með að velja sem fyrsta og annað val, þá vil ég að þú og hann vitir, að það er alltaf hægt að breyta. Það eru margir nemendur sem skipta um skóla eftir eina önn og komast þá stundum í drauma skólann sem þeir komust ekki inn í um haustið.